Sabine Leskopf, fyrsti sitjandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar af erlendum uppruna, býður sig fram í 3.-4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Sabine hefur verið varaborgarfulltrúi frá árinu 2014 og borgarfulltrúi frá 2018. Á þessu kjörtímabili hefur hún farið með formennsku í fjölmenningarráði sem og í innkaupa- og framkvæmdaráði. Hún er varaforseti borgarstjórnar og situr líka í umhverfis- og heilbrigðisráði, íbúaráði Laugardals og stjórn Faxaflóahafna.
„Það hefur verið mér mikill heiður og hvatning að vera fyrsti sitjandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar af erlendum uppruna. Ég hef í hátt í tuttugu ár starfað í grasrótarhreyfingu innflytjenda á Íslandi, sem er mjög gott veganesti í stjórnmálastarfið. Það er líka kjarni jafnaðarmennskunnar og snýst um að allir fái tækifæri til að taka þátt í að skapa gott borgarsamfélag. 17% Reykvíkinga eru af erlendum uppruna og bæði eiga og geta notið sín til fulls og tekið til máls. Ég vil því leggja áherslu að vera borgarfulltrúi með fjölmenningarlegan bakgrun, sem tekur virkan þátt í umræðunni um loftlagsbreytingar og borgarskipulag, jafnrétti í víðari skilningi og samfélag án ofbeldis, hverfismál, menntun og velferð,“ segir Sabine.
Sabine er fædd og uppalin í Þýskalandi og er gift Gauta Kristmannssyni, prófessor við HÍ, saman eiga þau þrjú börn. Sabine er með viðtæka háskólamenntun í tungumálum og kennslu og hefur lengst af starfað sem þýðandi og túlkur. Áhugamálin hennar eru lífræn garðyrkja og að gera upp gömul húsgögn. Hún er einnig mikill dýravinur og hefur m.a. leitt mikla endurskoðun á þjónustu borgarinnar við gæludýraeigendur.