Fjórir jarðskjálftar voru í Öskju í nótt, sá stærsti 3,1 að stærð og reið yfir klukkan hálffimm.
Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að líklega séu skjálftarnir hluti af landrisinu í Öskju sem hefur verið frá því í ágúst.
„Landrisið var búið að hægja á sér fyrir jól en tækjabúnaður var settur út við Öskju um 20. desember. Við sjáum ekki skýrt hvort landrisið haldi áfram en það er líklegt,“ segir Bjarki.
Bjarki segir ekki óvenjulegt að jarðskjálftar komi upp í Öskju „en kannski smá óvenjulegt að það komi skjálfti 3,1 að stærð“. Veðurstofan heldur áfram að fylgjast með þróun á svæðinu.