„Við vorum fylgjandi því sem kom fram í minnisblaði sóttvarnalæknis og landlæknis, þess efnis að við hefðum alveg getað hugsað okkur meiri aðgerðir í samfélaginu, einfaldlega vegna þess að róðurinn er hægt og bítandi að þyngjast hjá okkur,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Ríkisstjórnin kynnti í gær óbreyttar sóttvarnaaðgerðir næstu þrjár vikur.
„Mér fannst bæði heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra mjög málefnaleg í sínum tilsvörum við ráðherrabústaðinn, þetta var ákvörðunin núna og þau horfa til næstu daga og framþróunar í faraldrinum og ég held að við séum öll spennt að sjá hvernig sú framþróun verður,“ segir Már, spurður hvernig hann bregðist við tíðindunum.
„Ég get alveg fellt mig við þessa niðurstöðu, að svo komnu máli. Það hefur náttúrulega maður gengið undir manns hönd við að höfða til fólks. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra, þannig að með samstilltu átaki getum við í rauninni alveg haldið að okkur höndum í samskiptum og öðru slíku og reynt að ná þeim markmiðum sem að sóttvarnalæknir gerði að umtalsefni, um að ná þessum smitum niður í undir fimm hundruð á dag,“ segir Már.
„En sagan, hún er þannig að það hefur áður verið höfðað til fólks í landinu og það hefur ekki verið sérstaklega árangursríkt.“