Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir er nýr formaður Læknafélags Íslands (LÍ) til næstu tveggja ára. Í liðlega 100 ára sögu LÍ er Steinunn önnur konan til að gegna formennsku í félaginu. Fyrst var Birna Jónsdóttir röntgenlæknir, sem var formaður LÍ 2007-2011. Steinunn tekur við af Reyni Arngrímssyni sem sagði af sér formennsku í byrjun nóvember 2021.
Steinunn er öldrunarlæknir og yfirlæknir heilabilunareiningar Landspítalans frá 2018. Þá hefur Steinunn verið formaður læknaráðs Landspítala frá stofnun þess í nýrri mynd í byrjun 2021, að því er segir í tilkynningu.
Steinunn útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands 2004. Hún starfaði á Landspítala og á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til ársins 2008 þegar hún hóf sérnám í öldrunarlækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Hún var samhliða sérnámi í doktorsnámi og varði doktorsritgerð sína „Biomarkers in preclinical familial Alzheimer disease“ árið 2018. Steinunn flutti aftur heim til Íslands 2014 og hefur starfað við öldrunarlækningadeild Landspítala síðan og verið eins og áður segir yfirlæknir heilabilunareiningarinnar frá 2018.