Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, telur kosningaskjálfta kominn í meirihlutann í ljósi ákvörðunar hans um að falla frá tillögum um þéttingu við Bústaðaveg.
Reykjavíkurborg sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag um að hugmyndir um þéttingu við Bústaðaveg hefðu verið lagðar til hliðar.
Að sögn Eyþórs á enn eftir að taka formlega ákvörðun.
Könnun sem Gallup lagði fyrir íbúa í póstnúmerum 103 og 108 sýnir að meirihluti þeirra er á móti þéttingaráformum við Háaleitisbraut og við Bústaðaveg.
„Mér sýnist vera kominn á kosningaskjálfti þegar verið er að senda út fréttatilkynningu sama dag og könnun er birt. Það er mjög óvanalegt að þessi meirihluti hlusti á vilja íbúanna, það hefur ekki verið venjan,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is.
Eyþór kallar eftir því að áform meirihlutans um þéttingu við Háaleitisbraut verði einnig endurskoðuð og þannig hlustað á vilja íbúanna.
„Ég held að það þyrfti að endurskoða áformin við Háleitisbrautina líka og þannig hlusta á íbúa í báðum hverfum. Úr því að það er sett þetta fordæmi að hlusta á íbúana í Bústaðahverfi þá finnst mér að það ætti að hlusta á íbúa í fleiri hverfum.
Við viljum hlusta á yfirgnæfandi vilja íbúanna sem er svo skýr í þessu máli, bæði varðandi Bústaðaveginn og Háaleitisbrautina. Þéttingarstefnan er að fara í ákveðið skipbrot. Þetta er skýrast dæmið um það.“