„Búinn að hugsa þetta í svolítinn tíma“

Helgi Seljan hefur gengið til liðs við Stundina.
Helgi Seljan hefur gengið til liðs við Stundina.

Helgi Seljan fjölmiðlamaður segist í samtali við mbl.is spenntur fyrir því að hefja störf á Stundinni en þar mun hann gegna stöðu rannsóknarritstjóra. Hann hefur því sagt upp störfum hjá Ríkisútvarpinu eftir að hafa starfað þar í nærri 16 ár. 

„Ég er búinn að hugsa þetta í svolítinn tíma og á þessu ári er ég búinn að vera 20 ár í blaðamennsku svo mér fannst þetta bara spennandi tækifæri,“ segir Helgi og bætir við að á Stundinni starfi öflugur hópur sem hann hefur að hluta til unnið með á síðustu árum.

„Þau hafa sýnt hvers þau eru megnug og ég held að þau eigi helling inni líka svo ég held að þetta verði bara spennandi,“ segir Helgi. 

Þá segir Helgi það auðvitað erfitt að kveðja gamla vinnustaðinn en Helgi hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 2006.

„Ég hef svo sem engar sérstakar taugar til þessa húss en kannski aðallega fólksins sem er þar, og það er erfitt, og það er náttúrulega búið að vera gaman að vera þarna,“ segir Helgi og bætir við:

„Ég held ég hafi aldrei ætlað mér að vera svona lengi.“

Starfsmannaveltan spilað ekki inn í

Helgi segir mikla starfsmannaveltu á RÚV síðasta árið ekki hafa spilað inn í ákvörðunina. Hana hafi hann fyrst og fremst tekið fyrir sjálfan sig.

Hann bætir þó við að það sé auðvitað slæmt hversu margir hafi hætt störfum og að „blóðtakan“ á Ríkisútvarpinu hafi verið fordæmalaus, hver svo sem ástæðan fyrir henni sé.

„En það má ekki heldur gleyma því að það er fullt af ungu og öflugu fólki þarna inni sem að á þá skilið að fá tækifæri og geta lært helling af þeim sem eftir eru,“ segir Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert