Fordæma hatur og rasisma í garð Lenyu

Lenya Rún Taha Karim á Alþingi.
Lenya Rún Taha Karim á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokkur Pírata hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann fordæmir hatur og rasisma í garð Lenyu Rúnar Taha Karim, varaþingmanns flokksins.

Fram kemur að allt frá upphafi stjórnmálaferils hennar hafi hún þurft að mæta óvægnum áróðri og rasisma eingöngu fyrir það að taka þátt í stjórnmálum.

„Í lýðræðisríki er mikilvægt að allir þjóðfélagshópar hafi rödd og að Alþingi endurspegli sem best þverskurð af samfélaginu sem það þjónar. Hvers kyns rasismi, hatursorðræða og mismunun gagnvart fólki með erlendan bakgrunn er til þess fallinn að grafa undan lýðræðinu og má ekki viðgangast átölulaust,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að Leyna sé mikilvæg rödd ungs fólks og fólks með erlendan bakgrunn. Síðan hún var réttkjörin varaþingmaður hafi hún „þurft að sitja undir rætnum persónuárásum, rasisma og hatursorðræðu vegna uppruna síns. Sumir fjölmiðlar hafa jafnvel gengið svo langt að gera sér mat úr þeirri hatursfullu orðræðu sem Lenya Rún hefur orðið fyrir án þess að gera nokkra athugasemd við rasismann sem í henni felst“.

Þingflokkurinn hvetur íslenskar stjórnmálahreyfingar til að fordæma slíka hatursorðræðu og sýna ábyrgð í fréttaflutningi um hatursfull ummæli.

„Loks lýsir þingflokkurinn yfir fullum stuðningi við Lenyu Rún og harmar það misrétti sem hún hefur þurft að þola á sínum stutta en öfluga stjórnmálaferli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert