Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson, sem er ákærður fyrir að hafa nauðgað konu á nuddstofu sinni árið 2012, vildi ekki tjá sig um sakargiftir þegar skýrslutaka fór fram við aðalmeðferð málsins nú í morgun. Hann kvaðst hvorki hafa komið við brjóst eða kynfæri konu á óviðeigandi hátt.
Þetta kemur fram í frétt á vef Rúv um málið. Athygli vekur að málið er opið en almennt eru kynferðisbrotamál lokuð. Réttarhaldið fer fram í Héraðsdómi Reykjaness.
Eins og mbl.is greindi frá í október, þá staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að þinghaldið í sakamálinu yrði opið, en verjandi Jóhannesar hafði farið fram á að málið færi fram fyrir luktum dyrum.
Jóhannes var í janúar í fyrra dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum á meðferðarstofu sinni á tímabilinu 2009 til 2015. Landsréttur þyngdi síðan þann dóm í sex ár í nóvember sl.
Málið sem hófst í morgun er annað mál þar sem hann er ákærður fyrir nauðgun með því að hafa tvisvar í janúar 2012 haft önnur kynferðismök en samræði við konu með því að hafa káfað á kynfærum hennar, rassi og brjósti og sett fingur í leggöng hennar, henni að óvörum. Er því um að ræða sambærilega ákæru og sett var fram í fyrra málinu.