Bæjarstjórn Kópavogsbæjar samþykkti með ellefu samhljóða atkvæðum á fundi sínum í fyrradag drög að viljayfirlýsingu bæjarins og heilbrigðisráðuneytisins um að standa saman að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Kópavogi.
Sömuleiðis voru samþykktar tvær viðaukatillögur bæjarfulltrúa Viðreisnar um framtíð Arnarskóla og þeirrar starfsemi sem þar fer fram.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að byggja skuli 120 rýma hjúkrunarheimili, nærri tvöfalt fleiri en eru nú í Sunnuhlíð, á lóð sem Kópavogsbær lætur heimilinu í té. Rætt hefur verið um Kópavogsbraut í því sambandi. Gert er ráð fyrir að nýja hjúkrunarheimilið komi í stað Sunnuhlíðar og rísi þar skammt frá. Miðað er við að framkvæmdir hefjist á næsta ári og heimilið verði tekið í notkun þremur árum seinna.
Í viðaukatillögum bæjarfulltrúa Viðreisnar, sem einnig voru samþykktar samhljóða, segir að gerð verði þarfagreining á þjónustu við fötluð börn og ungmenni í Kópavogi, samhliða vinnu við könnun á fýsileika þess að byggja 120 rýma hjúkrunarheimili á þessum stað. Jafnframt er kveðið á um að leitað verði eftir kaupum á fasteignum við Kópavogsbraut til að tryggja áfram starfsemi Arnarskóla og heildarskipulag svæðisins.
Arnarskóli er í húsi á Kópavogsbraut 5b, á lóðarstubbi í eigu ríkisins, við lóð fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis. Þar eru 34 fatlaðir nemendur.