Bjóráhugafólk mun eflaust taka þeim fréttum fagnandi að í dag hefst sala á þorrabjór í Vínbúðunum. Sölutímabil þorrabjóra tekur beint við af jólabjórnum í Vínbúðum og rímar bjórúrvalið ágætlega við matarhefð Íslendinga á þessum tíma árs; stórir og þungir bjórar með þjóðlegum blæ margir hverjir.
Síðdegis í gær höfðu 17 þorrabjórar verið skráðir til sölu hjá ÁTVR en búast má við að þeim fjölgi um minnst 3-4 á næstu dögum. Auk þess eru tvær tegundir þorrabrennivíns nú fáanlegar.
Stærstu tíðindi þessa sölutímabils eru jafnan hvers konar Surti Borg brugghús sendir frá sér. Að þessu sinni eru Surtirnir fjórir. Surtur Nr. 93 er þroskaður á bourbon tunnum, Surtur Nr. 8.15 er 13% og þroskaður á tunnum sem áður geymdu romm úr púðursykri, Surtur Nr. 8.16 er 12,2% og þroskaður í brómberjabrandí-tunnum og sá síðasti er Surtur Nr. 8.17 sem er 12,2% að styrkleika og þroskaður í Chartreause-tunnum.
Að vanda sendir brugghúsið Steðji í Borgarfirði frá sér Hval 2 sem er bruggaður með taðreyktum langreyðar-eistum. Af öðrum sígildum þorrabjórum má nefna Þorra Kalda sem verið hefur sá vinsælasti á þessu sölutímabili undanfarin ár og Víking vetraröl. Dokkan á Ísafirði hefur bruggað Þorra Púka og The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum hinn bragðmikla 23.01.73 Porter. Þá kemur áhugavert hinderja- og kirsuberjaöl frá Segli 67 á Siglufirði og belgískt öl frá Ölverki sem kallast Sóði.
Einna mest spennandi nýmetið á borðum þetta árið verður samstarfsbrugg Víking brugghúss og Böl brewing. Mætast þar mikil og sterk hefð á Akureyri og nýjar hugmyndir úr Reykjavík. Útkoman er bjórinn Trylltur sem er af gerðinni New Zealand Pils og er 6% að styrkleika.