Helgi Bjarnason
Umboðsmaður barna hefur gert athugasemdir við framkvæmd sýnatöku hjá börnum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að verið sé að skoða hvort senda þurfi ábendingar um þetta efni til annarra heilbrigðisstofnana en vonar að aðrir skoði sín mál í kjölfar frétta fyrir áramót um ábendingar til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um framkvæmdina á Suðurlandsbraut.
Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar um framkvæmd PCR-sýnatöku á börnum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þær snúast aðallega um að umhverfi sýnatökunnar sé ekki barnvænt og taki ekki mið af þörfum barna og að starfsmenn hafi ekki fengið sérstaka þjálfun til að taka sýni af börnum eða eiga í samskiptum við börn. Ábendingum um þetta hefur verið komið til stofnunarinnar.
Þessar ábendingar eru keimlíkar ábendingum sem umboðsmaður fékk fyrir áramót um framkvæmd sýnatöku á börnum í starfsstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Suðurlandsbraut.
Auk athugasemda um umhverfið og þjálfun starfsfólks vakti umboðsmaður athygli Heilsugæslunnar á því að börn þyrftu oft að bíða mjög löngum stundum í biðröð eftir sýnatöku, jafnvel mjög ung börn. Salvör segist ekki hafa fengið formlegt svar við ábendingunum. 4, 22