Þjóðvegurinn um Öxnadalsheiði er enn lokaður vegna veðurs. Staðan verður næst tekin klukkan 11 en veginum var lokað í gærkvöldi.
Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á vegum á Norðurlandi, éljagangur og skafrenningur víða með mjög takmörkuðu skyggni á köflum. Þungfært er á Þverárfjalli.
Staðan á sunnanverðum Vestfjörðum er í skoðun. Þæfingur og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði en þungfært og éljagangur á Þröskuldum. Þungfært er í Árneshreppi. Víða er hálka eða snjóþekja, að því er Vegagerðin greinir frá. Vegirnir um Klettsháls, Hálfdán og Dynjandisheiði eru lokaðir vegna veðurs.
Á Norðausturlandi er hálka á flestum leiðum inn til landsins en hálkublettir eru með ströndinni. Dettifossvegur er ófær.
Á Austurlandi eru hálka og skafrenningur á Fjarðarheiði. Hálkublettir eða hálka víða en greiðfært með ströndinni. Vegfarendur eru beðnir um að vera á verði fyrir vetrarblæðingum milli Fáskrúðsfjarðar og Skeiðarársands. Ófært er um Öxi og Breiðdalsheiði
Á Suðausturlandi eru hálka eða hálkublettir milli Víkur og Kvískerja, en annars er autt að mestu. Varað er við hreindýrum við Jökulsárlón. Vegfarendur eru beðnir að vera á verði fyrir vetrarblæðingum milli Fáskrúðsfjarðar og Skeiðarársands.
Á Suðurlandi eru hálka, snjóþekja eða hálkublettir víða.