„Við buðum allt sem við gátum“

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Aldís Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir það vera gríðarleg vonbrigði að grunnskólakennarar hafi fellt nýj­an kjara­samn­ing sem þeir greiddu at­kvæði um síðustu daga.

Tæp­lega þrír af hverj­um fjór­um fé­lags­mönn­um í Fé­lagi grunn­skóla­kenn­ara sem tók þátt í at­kvæðagreiðslunni felldu samn­ing­inn, en kjör­sókn var 69%.

„Fyrst og fremst eru þetta gríðarleg vonbrigði, þetta kemur okkur auðvitað mjög á óvart af því að viðræðurnar gengu það vel, að eftir var tekið,“ segir Aldís í samtali við mbl.is.

Hún bætir við að vonast hafi verið til þess að samninganefnd kennara hefði það bakland að þessi samningur yrði samþykktur.

Snúið að ná lendingu

„Við töldum að í þessum samningi fælist allt það sem við gátum boðið og þarna er verið að bjóða það sem að aðrir launþegar á Íslandi fengu í lífskjarasamningum, þannig að við áttum okkur ekki á hvaða staða er þarna uppi og um hvað er verið að biðja,“ segir hún.

„Við buðum allt sem við gátum, í þessum samningi fólst það sem við höfðum að bjóða.“

Að sögn Aldísar hafi það legið fyrir allan tímann að samninganefnd sveitarfélaganna hefði ekkert umboð til þess að bjóða neitt annað en það sem aðrir Íslendingar hefðu fengið í lífskjarasamningum.

„Ef að kennarar telja sig þurfa að fá meira en allir aðrir hafa fengið, þá verður það mjög snúið að ná lendingu um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert