Borgarleikhúsið mun fella niður allar fyrirhugaðar sýningar vegna hertra sóttvarnatakmarkana sem kynntar voru í dag nema eina, en hún verður frumsýnd á föstudaginn næstkomandi.
Það er sýningin Ein komst undan eftir Caryl Churchill í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur.
Leyfilegt er að 50 manns komi saman í sóttvarnahólfi í leikhúsi, ef einn metri er á milli óskyldra aðila og grímuskylda virt.
Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins segir í svari við fyrirspurn mbl.is. að það sé „bagalegt“ að tæpum tveimur árum eftir komu veirunnar hingað til lands sé starfsemi leikhúsa enn settar miklar skorður.
Hún lítur þó bjartsýnum augum fram á veginn.
„Við höfum, frá upphafi faraldurs farið í hvívetna eftir tilmælum sóttvarnaryfirvalda og gildandi reglum um samkomutakmarkanir. Það hefur sett starfsemi okkar afar þröngar skorður og á stundum stöðvað hana alveg. Það er vissulega bagalegt, tæpum tveimur árum síðar, en við erum lausnamiðuð og höfum gert okkar besta úr stöðunni hverju sinni. Það er auðvitað brýnt að passa upp á líkamlega heilsu landsamanna og velferð. Í Borgarleikhúsinu gerum við allt til að gæta öryggis starfsfólks og gesta en okkar aðalhlutverk er að auðga andann og passa upp á andlega heilsu þjóðarinnar,“ segir hún og bætir við:
„Við munum halda sjó sem endranær og hlökkum til að galopna dyr okkar að nýju þegar ástandið batnar og öruggt þykir. Þangað til erum við spennt að sjá hvaða viðspyrnuaðgerðir eru í burðarliðnum til að vernda starfsemina, starfsfólk leikhússins og menninguna í landinu.“