Krefjandi staða uppi hjá leikhúsunum

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. Kristinn Magnússon

Þótt viðbúið hafi verið að ríkisstjórnin myndi herða sóttvarnaraðgerðir vegna stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi eru aðgerðirnar vissulega áfall fyrir þá sem starfa í sviðslistageiranum. Þetta segir Magnús Geir Þórðarsson þjóðleikhússtjóri, í samtali við mbl.is.

„Þetta er auðvitað afskaplega krefjandi staða fyrir okkur eins og fyrir svo marga aðra. Allt sýningarhald hefur stöðvast og samhliða riðlast aðrar áætlanir út leikárið.“

Hafa ekki mátt halda sýningar síðan fyrir jól

Samkvæmt nýju aðgerðunum, sem ríkisstjórnin kynnti að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu í dag, munu tíu manna samkomutakmarkanir taka gildi innanlands á miðnætti og gilda til 2. febrúar. Þá verður spilasölum og skemmtistöðum lokað og óheimilt að halda fjölmenna viðburðir þar sem neikvæðum hraðprófum er framvísað. Til­kynn­ingu stjórn­valda má lesa hér. 

Magnús segir Þjóðleikhúsið stefna að því að hefja sýningar á nýjan leik 4. febrúar þó líklegt sé að það verði með einhverjum takmörkunum.

„Við gerum þó okkar besta til að nýta tímann vel fram að því til að geta tekið á móti áhorfendum með útbreiddan faðm um leið og aðstæður leyfa.“

Þótt staðan sé snúin segir hann starfsmenn Þjóðleikhússins sýna stöðunni skilning og að samstarf þeirra við stjórnvöld hafa verið með miklum ágætum fram að þessu.

Á síðustu tuttugu mánuðum höfum við í Þjóðleikhúsinu einnig reynt að leggja okkar lóð á vogarskálarnar með ýmsum hætti, nú síðast með því að bjóða börnum í bólusetningu í Laugardalshöll upp á skemmtun og gleði með heimsókn ræningjanna í Kardemommubæ.

Allt sýningarhald leikhúsanna hafi þó verið stöðvað þegar aðgerðir voru hertar síðast og því felist vonbrigði yfir nýju aðgerðunum aðallega í því að þurfa fresta sýningum enn frekar.

„Í raun hafa sýningar legið niðri í flestum leikhúsum frá því fyrir jól og þessi nýja reglugerð breytir ekki öllu. En við vonumst innilega til þess að það verði hægt að rýmka reglurnar á nýjan leik sem allra fyrst og að við verðum þá tilbúin til að taka á móti gestum, skemmta þeim og veita andlega næringu. Vonandi gerist það strax í fyrri hluta febrúar.“

Tómlegt hefur verið í Þjóðleikhúsinu frá því sóttvarnaraðgerðir voru hertar …
Tómlegt hefur verið í Þjóðleikhúsinu frá því sóttvarnaraðgerðir voru hertar síðast fyrir jól. Ómar Óskarsson

Eins og að sigla risastóru skipi í skerjagarði

Í leikhúsrekstri þurfi nefnilega að gera áætlanir fram í tímann og því sé ekki auðvelt að breyta til þegar forsendurnar breytast jafn ört og þær hafa gert í gegnum faraldurinn.

„Þetta er eins og að sigla risastóru skipi í skerjagarði þar sem það eru alltaf að koma upp ný og ný sker sem þarf að sneiða framhjá án þess að maður viti hvað svo tekur við,“ segir Magnús.

Hefur ríkisstjórnin reynt að styðja við leikhúsin á einhvern hátt í gegnum faraldurinn?

„Já, hún hefur gert það en með ólíkum hætti milli stofnana. Nú er verið að ræða nýjan stuðningspakka og ég vona að það takist að bæta menningarlífinu þetta sem best upp þannig neikvæðar afleiðingar aðgerðanna verði sem minnstar til lengri tíma litið. Það er nefnilega hætta á að það kvarnist úr hópi menningar- og listamanna sem við þurfum svo mikið á að halda í samfélaginu, ekki síst núna.“

Þótt ekki sé heimilt að sýna í leikhúsunum megi þó enn æfa sýningar á sviði og er það mikill léttir fyrir leikhúsin, að sögn Magnúsar.

Við erum afskaplega ánægð að stjórnvöld stuðli að því að við getum haldið æfingum áfram, þótt sýningarhald liggi niðri. Við nýtum tímann vel því við ætlum að vera tilbúin að galopna fyrir leikhúsþyrstum landsmönnum um leið og færi gefst. Við hlökkum óskaplega til þess tíma þegar við megum mæta áhorfendum okkar á nýjan leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert