Ragnar Hjartarson, listrænn stjórnandi hjá Georg Jensen í Kaupmannahöfn, og Mehul Tank, forstjóri fyrirtækisins, urðu þess heiðurs aðnjótandi í vikunni að ganga á fund Margrétar Þórhildar II. Danadrottningar í Amalienborgarhöll og færa henni forláta nælu að gjöf í tilefni af því að á þessu ári eru liðin fimmtíu ár frá því að hún settist á valdastól.
Um er að ræða nælu úr gulli og hvítagulli með 135 listilega útskornum demöntum sem Georg Jensen lét hanna sérstaklega af þessu tilefni. „Það var gert til að fagna einni merkustu vörðunni á vegferð hennar hátignar,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Í samtali við Morgunblaðið segir Ragnar fundinn hafa verið mjög ánægjulegan og að það hafi verið mikil upplifun og heiður að hitta drottninguna. „Það er mikill hátíðarandi hér í Danmörku í kringum afmælið og búast má við mikilli umfjöllun um það á næstunni.“