„Góð aðstaða skapar og eykur áhuga. Framkvæmdir sem nú eru framundan eru því þarfar og mikilvægar,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Mikil uppbygging stendur nú fyrir dyrum bæði í Bláfjöllum og Skálafelli á Mosfellsheiði svo sem nýjar stóla- og diskalyftur ásamt snjóframleiðslu og fleira. Heildarkostnaður við þá uppbyggingu á skíðasvæðunum tveimur sem framundan er mun losa um það bil fimm milljarða króna og verður greiddur af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til samræmis við íbúafjölda.
Í Suðurgili Bláfjalla er lyftan Gosi, sem sett verður upp í breyttri legu auk heldur sem brautir og endastöðvar verða lagaðar að því. Byrjað verður að setja nýju lyftuna upp síðar á þessu ári og stendur til að hún verði tilbúin fyrir skíðavertíð næsta vetrar. Í Kóngsgili er lyftan Drottning. Núverandi búnaði þar verður skipt út fyrir nýjan sem ætti að vera tilbúinn á næsta ári – ef ekki á sama tíma og Gosalyftan góða. Afkastageta svæðisins mun aukast verulega með tilkomu lyftanna tveggja eða um 4.800 manns á klukkustund. Fyrir eru níu diskalyftur í Bláfjöllum sem flutt geta um 10.500 manns á klukkustund.
„Uppbygging í Bláfjöllum hefur verið lengi á dagskrá, en skipulagður undirbúningur hófst árið 2010. Svona verkefni taka alltaf langan tíma, svo sem skipulagsvinnan, samanber að Bláfjöll eru á vatnsverndarsvæði og því þurfa öll mál mjög nákvæma skoðun. Þar nefni ég staðsetningu lyfta, frárennslismál, athuga þarf umhverfisáhrif af hugsanlega meiri umferð og fleira,“ segir Magnús og heldur áfram:
„Nú eru skipulagsmálin frágengin og fleiri slíkir þættir. Reyndar var búið að samþykkja allar fjárveitingar árið 2018 og framkvæmdir áttu að hefjast árið 2020, þegar allt fór í baklás vegna kórónuveirunnar. Gengi íslensku krónunnar breyttist svo verð á þeim búnaði sem pantaður hafði verið rauk upp. Því var málið sett í bið. Núna er hins vegar kominn á bindandi samningur um kaup á lyftum sem framleiðendur í Austurríki eru byrjaðir á. Þetta er allt að smella saman og eftir tvö ár verður umhverfið og aðstaðan hér í Bláfjöllum orðin allt önnur og betri en nú.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.