Minjavernd reiknar með að gengið verði frá sölu á Hótel Flatey í Flatey á Breiðafirði fyrir lok mánaðarins.
„Minjavernd endurgerði þessi hús á sínum tíma og hefur haft þau í útleigu og rekstri,“ sagði Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar. Húsin eru Eyjólfspakkhús, Stórapakkhús og Samkomuhúsið. Þau voru öll upphaflega byggð sem pakkhús og notuð í tengslum við verslunarrekstur og fiskverkun. Húsin hafa gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina.
Minjavernd hóf að endurbyggja þessi hús 1988 og lauk því verki 2006 eða sama ár og rekstur Hótels Flateyjar hófst. Hótelið hefur verið leigt út alla tíð síðan og þar verið rekið sumarhótel. Auk þessara húsa byggði Minjavernd tvö hús, Friðheima og bryggjuskúr, í tengslum við hótelreksturinn. Gistiherbergi í hótelinu eru 14, auk starfsmannaaðstöðu, veitingahúss og geymslu.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.