Takmarkið að ná smitum niður í 500 á dag

Þórólfur segir takmark aðgerðanna vera að ná smitum niður í …
Þórólfur segir takmark aðgerðanna vera að ná smitum niður í 500 á dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Takmark aðgerða núna ætti að vera að halda áfram uppbyggingu á heilbrigðis- og spítalakerfi landsins samhliða því að ná fjölda samfélagslegra smita niður í viðráðanlega fjölda, eða um 500 smit á dag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem hann sendi heilbrigðisráðherra áður en ríkisstjórnin tók ákvörðun um hertar sóttvarnaaðgerðir í dag.

Listar Þórólfur upp þrjá valkosti sem hann telur að standi til boða varðandi opinberar sóttvarnaaðgerðir innanlands.  Eru þær eftirfarandi:

  1. Óbreyttar sóttvarnaaðgerðir innanlands. Segir Þórólfur að líklega muni fjöldi smita haldast óbreyttur í nokkra daga og vikur og að það muni valda meira álagi á heilbrigðiskerfið, jafnvel þótt þróunin muni fylgja björtustu spám. Einnig megi búast við vaxandi truflun á starfsemi fyrirtækja vegna útbreiddra veikinda.
  2. Hertar sóttvarnaaðgerðir innanlands. Segir hann að reynslan af hörðum aðgerðir sé mikil og sýni að hægt sé að ná tökum á samfélagslegum smitum með hörðum aðgerðum. Árangur slíkra aðgerða kunni hins vegar að verða minni og taka lengri tíma nú vegna þess að smithæfni Ómíkron-afbrigðisins sé meira en fyrri afbrigða og vegna þess að faraldurinn sé útbreiddari en áður hafi sést. Telur hann að hertar aðgerðir muni fækka samfélagslegum smitum og álag á heilbrigðiskerfið minnki.
  3. Mjög strangar takmarkanir og lokanir í stuttan tíma. Þórólfur segir að með víðtækum lokunum í samfélaginu, bæði í fyrirtækjum, stofnunum og skólum í t.d. 10 daga væri hægt að ná smitum hratt niður og í kjölfarið aflétta í skrefum. Það kalli hins vegar á mikla röskun í samfélaginu, en fyrr myndi sjást ásættanleg fækkun smita. Þrátt fyrir undanþágur þyrfti lokun að ná til sem flestra.

Nánari útfærsla aðeins við valkost 2

Þórólfur setur svo niður nánari útlistanir á aðgerðum sem hann telur að þurfi að huga til verði valkostur tvö valinn, en það er eini valkosturinn þar sem nánari útfærsla kemur fram. Er útfærslan sem Þórólfur leggur til samhljóða því sem ríkisstjórnin kynnti ef frá er talið að Þórólfur taldi að fjöldatakmörk í verslunum ætti að vera 50 manns, en að hámarki 100 manns eftir stærð verslana. Ríkisstjórnin valdi þó að setja hámarkið í 200 manns eftir stærð verslana.

Þær takmarkanir sem taka gildi núna á miðnætti eru meðal annars eftirfarandi:

  • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
  • Áfram 2 metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
  • Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
  • Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
  • Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.
  • Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
  • Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
  • Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.
  • Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.

Ný reglugerð um samkomutakmarkanir sem tekur gildi á miðnætti

Minnisblað sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka