Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun að taka á móti 35-70 manns frá Afganistan, til viðbótar við þann hóp sem tekið var á móti í haust, vegna ástandsins sem ríkir í landinu í kjölfar valdatöku talíbana.
„Lífsskilyrði þar hafa farið ört versnandi undanfarna mánuði og telur ríkisstjórnin brýnt að bregðast frekar við því. Flóttamannanefnd hefur verið falið að útfæra tillögu ríkisstjórnarinnar en horft verður sérstaklega til einstæðra kvenna í viðkvæmri stöðu sem hafa náin tengsl við Ísland og barna þeirra. Erfitt er að meta nákvæman fjölda sem tekið verður á móti þar sem hann fer eftir fjölskyldusamsetningu,“ segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Vegna ólgu og upplausnar í kjölfar valdatöku talíbana samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum þann 24. ágúst 2021 að aðstoða og taka á móti tilgreindum hópi Afgana með tengsl við Ísland. Að tillögu flóttamannanefndar var sérstök áhersla lögð á einstaklinga sem unnu með eða fyrir Atlantshafsbandalagið, fyrrverandi nemendur við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi (GRÓ-GEST) og einstaklinga sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða voru þegar komnir með samþykkta umsókn um dvalarleyfi. Sökum fjölskyldusamsetningar hópanna var erfitt að áætla fjöldann sem umræddar aðgerðir náðu til en var gert ráð fyrir að hann yrði um 90 til 120 manns, segir ennfremur.
Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gengu eftir og komu 78 einstaklingar til landsins í haust. Fimm manna fjölskylda þáði ekki boð um að flytjast til Íslands og fjörutíu einstaklingar hafa fengið að dveljast í öðrum ríkjum.