Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala og formaður farsóttanefndar, segist vona að nýju sóttvarnaraðgerðirnar sem taka í gildi á miðnætti, muni duga til þess að ná daglegum smitfjölda niður og þar af leiðandi minnka álagið á heilbrigðiskerfinu.
„Það eru allir með sting í hjartanu yfir því að þurfa gera þetta enda erfitt fyrir alla,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Sé þó horft til hagsmuna spítalans og heilbrigðiskerfisins í heild sinni telur Már ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að herða sóttvarnaraðgerðir enn frekar hafa verið skynsamlegar og bindur hann vonir um að þær verði til þess að verkefnið sem spítalinn hefur staðið frammi fyrir verði viðráðanlegra.
Spurður út í stöðuna segir hann spítalann halda sjó eins og er. Lítið aðstreymi hafi verið á bráðamóttökuna síðastliðna daga og það hjálpi til við að draga úr álaginu.
„Svo hefur maður líka gengið undir manns hönd. Starfsemi hefur víða verið endurskipulögð, mönnun efld á gjörgæsludeildum og dregið hefur verið úr skurðstofu- og daggöngudeildarstarfsemi svo hægt sé að endurraða inn á legudeildirnar. Síðan er verið að reyna koma fullt af sjúklingum í úrræði úti á landi. Þannig miðað við allt sem er í gangi þá lafir þetta.“
Ástandið sé þó langt frá því að vera eðlilegt og staðan á spítalanum fljót að breytast á milli daga enda misjafnt hversu margir sjúklingar leggjast þar inn á hverjum degi og daglega sem það koma upp smit inni á legudeildum.
„Þegar það gerist fer rakning í gang og það dregur úr getu viðkomandi deildar til að sinna sínu. Það sást mjög glögglega þegar t.d. sjúkrahúsið á Vogi þurfti að stoppa alla sína starfssemi um og loka um hríð vegna hópsmits sem kom upp þar nýlega. Við erum að glíma við það á hverjum degi í mörgum starfseiningum okkar.“
Þá segist hann vona að álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsmanna muni draga úr mönnunarvanda spítalans, inntur eftir því.
„Þeim mun fleiri starfsmenn sem fást til vinnu þeim mun fleiri sjúkrarúm getum við haft opin. Það er nefnilega hægt að auka legurými beint og óbeint. Beint með því að hafa fleira fólk til starfa og þannig geta fullnýtt þær deildir sem hafa ekki verið fullnýttar og svo óveint með því að greiða fyrir eðlilegu flæði í gegnum sjúkrarúmin.“
Þótt verið sé að vinna að því að minnka álagið á spítalanum sé hann ekki að sinna öllum þeim verkefnum sem hann á að vera sinna og í því sé neyðin fólgin, að sögn Más.
Í nýjasta minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi heilbrigðisráðherra áður en ríkisstjórn tók ákvörðun um hertar sóttvarnaraðgerðir í dag kom fram að markmiðið með sóttvarnaraðgerðum væri m.a. að ná samfélagslegum smitum niður í 500 á dag.
Spurður segir Már það mun viðráðanlegra verkefni fyrir spítalann að glíma við 500 smit á dag heldur en þau rúmlega þúsund smit sem hafa verið að greinast undanfarna daga.
„Það er margt sem hefur slípast til hjá okkur í áranna rás þannig við erum að afkasta miklu meiru en við gerðum. Ef við náum innlagnarhlutfallinu niður í 0,3 þá yrði það ríflega 1 af hverjum 500 sem þyrfti að leggjast inn á spítalann. Það er auðveldara.“
Þá segist hann sammála ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að halda skólum áfram opnum, þrátt fyrir að börn séu í miklum meirihluta þeirra sem eru að smitast í yfirstandandi bylgju faraldursins, inntur eftir því.
„Það væri erfiðara fyrir atvinnulífið ef allt vinnuaflið sem á börn þyrfti að vera heima að gæta barnanna. Miðað við kosti og galla ráðstöfunarinnar held ég að það séu fleiri kostir við það heldur en gallar.“