Hertar sóttvarnaaðgerðir eru vonbrigði fyrir samfélagið og gera þær atvinnurekendum í ferðaþjónustu mjög erfitt fyrir.
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður út í nýsamþykktar aðgerðir stjórnvalda.
„Veitingageirinn á augljóslega mjög erfitt með þetta en ekki síður hótel og afþreyingaraðilar sem eru að taka á móti hópum. Það þrengir verulega að þeirri starfsemi. Við vonumst til að þetta geti verið í eins skamman tíma og hægt er.
Fram kom að loknum ríkisstjórnarfundi að gjalddögum varðandi skatta fyrir veitingaaðila verður frestað til að koma til móts við rekstraraðila í þeim geira.
„Það er mjög jákvætt að ríkisstjórnin skuli bregðast við ákallinu fyrir veitingastaðina með því að fresta þessum gjalddögum. Það er mikilvægt og kemur til móts við tekjufall í desember út af sóttvarnaaðgerðum,“ bætir Jóhannes við.
Hann segir einnig mikilvægt að beinar stuðningsaðgerðir komi líka til. Samtök ferðaþjónustunnar hafi sent tillögur þess efnis í desember.