Borin hafa verið kennsl á tæplega eitt þúsund háhyrninga við Snæfellsnes á síðustu tíu árum. Þetta segir í tilkynningu frá Náttúrustofu Vesturlands þar sem vísað er í nýja skýrslu sem stofan vann í samstarfi við samtökin Orca Guardians.
Þar segir að Marie-Thérèse Mrusczok, stofnandi Orca Guardians og starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands, hafi greint um 330.000 ljósmyndir sem teknar voru á árunum 2011 til 2021 í hvalaskoðunarferðum Láka Tours við Snæfellsnes og bar kennsl á 961 háhyrning.
Þar að auki hafi 26 bæst við eftir að ljósmyndir frá öðrum stöðum á borð við Steingrímsfjörð, Ísafjörð, Látrabjarg, Skjálfanda, Borgarfjörð eystri, Hvalfjörð, Grindavík, Faxaflóa og Vík, voru greindar.
Skrá yfir háhyrninga í grennd við Ísland er notuð sem „verkfæri til að stuðla að verndun og langtímarannsóknum á íslenska háhyrningastofninum“, segir í tilkynningunni en skráin er afrakstur átta ára vinnu.
Skrásetningin fer fram með þeim hætti að ljósmynd er tekin af hverjum háhyrningi og vistuð í gagnagrunn þar sem fram kemur hvenær þeir sjást og í hvaða félagsskap.
Greint sé á milli háhyrninga út frá stærð og lögun bakhyrnunnar og söðulbletts fyrir aftan og til hliðar við bakhyrnuna. Hver háhyrningur sé einstakur að því leyti.