Orkuhúsið útvegar lækna og hjúkrunarfræðinga

Starfsfólk Orkuhússins og Klíníkurinnar aðstoða hlaupa undir bagga með starfsfólki …
Starfsfólk Orkuhússins og Klíníkurinnar aðstoða hlaupa undir bagga með starfsfólki Landspítalans næstu daga og vikur. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Orkuhúsið um að útvega lækna og hjúkrunarfræðinga til að starfa á Landspítala.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði við fjölmiðla í gær að ríkisstjórnarfundi loknum að á meðal aðgerða sem unnið væri að til að styðja betur við Landspítalann til að takast á við fjölda innlagna vegna Covid-19, væri að semja við ýmsa einkaaðila í heilbrigðisgeiranum til þess að leggja til starfsfólk.

„Verkefnið hefst næsta mánudag, [17.] janúar. Þessi liðstyrkur frá Orkuhúsinu kemur til viðbótar við starfsfólk frá Klíníkinni í Ármúla sem þegar er að störfum á Landspítala samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar,“ segir í tilkynningu. 

Þá kemur fram að unnið sé að frekari útvíkkun verkefnisins í samstarfi við fleiri læknastöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu er viðsemjendum þakkað fyrir frábært samstarf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert