Bestu árunum eytt fyrir framan skjá

Óþekkjanlegir grímuklæddir nemendur í Verslunarskólanum.
Óþekkjanlegir grímuklæddir nemendur í Verslunarskólanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unglingum finnst glatað að hafa eytt meirihluta af því sem eiga að vera bestu ár ævi þeirra starandi á tölvuskjá vegna kórónuveirufaraldursins. Framhaldsskólaár þeirra sem útskrifast í vor hafa farið fyrir lítið og segjast nemendur virkilega þreyttir á ástandinu.

„Við viljum fá að djamma og viljum skemmta okkur án hafta,“ segir Ísak León Júlíusson, nemandi í Verslunarskóla Íslands. mbl.is ræddi við hann, MR-inginn Rafn Ágúst Ragnarsson, kvenskælinginn Völu Saskíu Einarsdóttur og Hrefnu Magndísi Haraldsdóttur úr Borgarholtsskóla. Öll nema Hrefna hófu nám haustið 2019, útskrifast í vor og kannast því bara við takmarkalausa gleði framhaldsskólaáranna frá fyrsta skólaári sínu en veiran nam land í lok febrúar 2020.

Öll segja þau ótrúlega súrt að missa framhaldsskólaárin sín í þetta ástand en þau höfðu áður heyrt að þetta væru árin þar sem nemendur kynnist fullt af fólki. „Einmitt, hugsa ég núna. Ég er búin að sitja heima og stara á tölvuskjá meirihlutann af tímanum,“ segir Vala Saskía.

Fyrsta önnin eins og „fjarlægur draumur“

Vala flutti í höfuðborgina frá Hvolsvelli áður en hún hóf nám í Kvennaskólanum og leigir með vinkonu sinni, sem einnig flutti í borgina. Hún segir muna miklu um að hafa fengið þessa eðlilegu fyrstu önn, þótt hún virki núna eins og fjarlægur draumur:

„Svo hefur restin verið ömurleg. Það er glatað að fá forsmekkinn en svo ekkert meira,“ segir Vala og bætir við að hún hafi alltaf haldið að næsta önn yrði betri. 

„Ég er samt ógeðslega þakklát fyrir það að hafa alla vega fengið að mæta í skólann en það vantar allt félagslíf.“

Nýnemar í Menntaskólanum í Reykjavík eru tolleraðir af þeim eldri …
Nýnemar í Menntaskólanum í Reykjavík eru tolleraðir af þeim eldri þegar veiran er ekki á sveimi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrefna Magndís tekur í sama streng og segir að hana vanti þessar stóru menntaskólaupplifanir eins og böllin og slíkt. „Það er þó léttir að fá að mæta í skólann. Fyrir utan það þarf maður að vera svolítið hugmyndaríkur með félagslífið,“ segir hún.

Passa að „það fari ekki allt í fokk“ á spítalanum

Ísak León segir unga fólkið pirrað á ástandinu og það vilji komast út og njóta áranna þar sem það er mitt á milli þess að vera börn og fullorðin. „Það eru náttúrulega komin tvö ár,“ segir Ísak.

Hann gagnrýnir að heilbrigðiskerfið hafi ekki verið bætt þannig að hægt sé að taka á móti fleiri Covid-sjúklingum á spítala en undanfarna daga hefur þeim fjölgað hratt á Landspítalanum. „Það er eiginlega ekkert búið að gera þannig að hægt sé að taka á móti fleiri,“ segir Ísak.

Hann segir flesta sem hann þekki hrausta og heilbrigða þótt auðvitað þekki margir fólk í áhættuhópum. Hann veltir því fyrir sér hvenær hamlanir vegna faraldursins hafi meiri áhrif en faraldurinn sjálfur.

„Þetta er pirrandi en á sama tíma erfitt að koma þessu rétt frá sér,“ segir Ísak sem vill opna samfélagið meira og einnig passa að „það fari ekki allt í fokk“ á spítalanum.

Frá peysufatadegi Kvennaskólans, þar sem allt of margir koma saman …
Frá peysufatadegi Kvennaskólans, þar sem allt of margir koma saman miðað við það sem leyfilegt er í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

MR-ingurinn Rafn Ágúst hefur miklar áhyggjur af hinu fornfræga nemendafélagi Framtíðinni. Nemendafélögin eru tvö í skólanum og hefur það verið hlutverk Framtíðarinnar að sjá um félagslífið eftir áramót en lítið hefur verið um slíkt líf á veirutímum.

Framtíð Framtíðarinnar ekki glæsileg

„Við í stjórn Framtíðarinnar vorum vongóð þegar við tókum við keflinu eftir síðasta skólaár en höfum ekkert getað gert,“ segir Rafn sem segir framtíð Framtíðarinnar ekki glæsilega. Yngri nemendur þekki ekki hefðir og viðburði tengda félagslífinu en hann óttast að félagið leysist upp í einhverri Covid-deyfð.

Eins og aðrir segir hann framhaldsskólanemendur þreytta á stöðunni og ástandinu. „Fólk vill prófa að lifa lífinu og hefur ekkert fengið að gera það.“

Rafn kveðst heppinn að eiga góðan vinakjarna en segir þrátt fyrir það að ástandið hafi haft slæm andleg áhrif, sérstaklega haustið 2020. „Þá var fjarkennsla alla önnina sem svoleiðis tætir andlega heilsu í sundur,“ segir Rafn en þá var deginum eytt heima fyrir framan tölvuskjá.

„Ef þú varst heppinn gastu svo farið á rúnt með þremur vinum á laugardagskvöldi,“ segir Rafn og bætir við: „Þetta var einfaldlega mannskemmandi.“

Rafn hefur haft töluverðar áhyggjur undanfarin tvö ár. Ekki þó af veirunni sjálfri, heldur frekar öðru henni tengdri. „Maður hefur miklar áhyggjur af tölunum og er líklega búinn að þróa með sér einhverja röskun,“ segir Rafn en eins og flestum er kunnugt um eru daglega birtar tölur yfir hversu margir greindust með veiruna.

„Maður vissi að ef tölurnar færu hækkandi varð maður dapur. Eigum við ekki bara að segja að þetta gefi karakter?“ spyr Rafn.

Nemendur í Borgarholtsskólanum halda hæfilegri fjarlægð.
Nemendur í Borgarholtsskólanum halda hæfilegri fjarlægð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað framtíðina varðar eftir óhefðbundin framhaldsskólaár segist Vala Saskía í það minnsta ekki geta hugsað sér frekara nám fyrr en hún verði alveg viss um að veiran muni ekki hafa áhrif á skólann.

Tekur ekki sénsinn á frekara námi í bili

„Ég tek ekki sénsinn á því, ertu að grínast í mér?“ spyr Vala og hálfhlær. „Ég er eiginlega búin að missa af menntaskólaárunum og ætla ekki að missa af háskóla líka.“

Öll veran heima við skjáinn hefur að mati Völu haft mikil áhrif á hana og samnemendur og þeirra andlegu heilsu. „Ég segi ekki að við séum viðkvæmasti hópurinn en þetta er samt smá greyið við. Við fáum þessi ár ekki aftur en ég útskrifast í vor og þá er þetta bara búið.“

Hún segir að þær reglur sem séu núna í gildi séu ekki að ganga en dettur ekki betri lausn í hug. „Ég held að ég hafi heyrt svona 20 sinnum síðustu daga: „Æj, fokk it. Þá fæ ég bara Covid núna og þá er þetta búið.“ Það er búið að vera algjört hell að vera í fjarnámi fjarri vinum og að vissu leyti er okkur öllum orðið svolítið sama.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert