Ólíklegt er að nýlegar sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda muni skila tilætluðum árangri, enda er faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna í mennta- og háskóla. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum og fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala.
Hann segir að víða erlendis sé verið að endurskoða nálgun í ljósi breyttra aðstæðna sökum þess að fleiri smitist en fáir lendi á gjörgæslu. Tíðni innlagna vegna Ómíkron-afbrigðisins sé lægri á Íslandi en í Danmörku og margfalt lægri en vegna Delta-afbrigðisins.
„Víða í kringum okkur er verið að skilgreina viðbrögð upp á nýtt í ljósi nýrra forsendna, m.a. á hinum Norðurlöndunum. Verið er að endurhugsa skimanir, sóttkví, viðbrögð almennings og á heilbrigðisstofnunum. Tímabært er að við gerum slíkt hið sama,“ skrifar Ragnar Freyr á Facebook.
„Við þurfum að þrauka í gegnum harðar samfélagsaðgerðir enn á ný. Að þessu sinni erum við á leið út af sporinu. Mikilvægt er að við komum okkur á rétta braut fyrr en seinna. Loksins sést til sólar.“