Sukkið er skammgóður vermir

Anna Sigríður hjálpar og fylgist með fólki breyta sínum matarvenjum …
Anna Sigríður hjálpar og fylgist með fólki breyta sínum matarvenjum í nýjum þætti sem ber nafnið Nærumst og njótum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna Sigríður er önnum kafin þessa dagana; hún sinnir kennslu í Háskólanum sem er að komast í gang eftir jólaleyfi og er enn í tökum á sjónvarpsþáttum sínum, en hún stjórnar þáttaröðinni Nærumst og njótum sem nú er sýnd á RÚV. Þar leiðbeinir hún einstaklingum og fjölskyldum með að breyta matarvenjum sínum á sex vikum og fylgist með hvernig gengur. Anna Sigríður er matvælafræðingur í grunninn með meistara- og doktorspróf í næringarfræði og ljóst að fáir væru hæfari til að upplýsa okkur hin um mikilvægi þess að nærast og njóta.

Flækjustig við að borða

„Mér finnst hegðun í kringum mataræði svo áhugaverð. Um leið og við erum ekki í góðri rútínu er það meira en að segja það að hafa mataræðið sem best,“ segir Anna Sigríður og segir að streita, Covid, flækjustig samsettra fjölskyldna og hraðinn í samfélaginu geti sett allt úr skorðum.

„Ég vinn þættina út frá minni fagþekkingu og reynslu. Þetta var mjög skemmtilegt því það er eitt að kenna vísindin og annað að fara inn á heimili og nýta sér þau. Það er allt önnur nálgun þannig og ég lærði svo margt bæði af þátttakendum og samstarfsfólki, en þættirnir eru framleiddir af SagaFilm. Ég sá við tökurnar hvað vísindin og aðferðir rannsókna virka vel, en ekki síst var gaman að sjá litlu atriðin, þessa innsýn í daglegt líf fólks. Ég fékk að fara inn í þennan fallega hversdagsleika sem fylgir flækjustigi þess að borða. Við erum ekki að pæla í því þegar við vöknum á morgnana hvað það eru ótrúlega mörg handtök og margar ákvarðanir og hugsanir sem tengjast mat. Þetta getur klikkað á svo mörgum stigum,“ segir Anna Sigríður og bendir á að samkvæmt rannsóknum tökum við um 200 ákvarðanir tengdar mat á degi hverjum.

Að nærast og njóta

Anna Sigríður segir að margir hafi boðið sig fram til að vera með í þáttunum.
„Þetta er ótrúlega breiður hópur; yngsta var tíu vikna þegar við byrjuðum og elsta er sjötug. Við erum með bæði einstaklinga og stórar, jafnvel samsettar fjölskyldur,“ segir Anna Sigríður og segir hún tilganginn hafa verið að finna leiðir sem henta hverjum og einum í átt að betri matarvenjum en um leið ná utan um það sem við flest eigum sameiginlegt.
„Það hafa ekki allir sömu næringarþarfir og ekki sama smekk á mat og ég kem til fólksins með fullt af verkfærum og við finnum leiðir til að betrumbæta mataræðið. Í leiðinni getur áhorfandinn tekið til sín það sem hentar honum,“ segir Anna Sigríður.

Hvaða „verkfæri“ ertu að tala um?

„Það fer eftir því hvað við erum að skoða, en við tökum meðal annars fyrir seddustjórnun, skipulag og rútínur, matvendni, samskiptamynstur og marga aðra þætti sem geta haft áhrif á matarvenjur. Það kom mér á óvart að þegar við spurðum fólk, þá sá það ekki alltaf að orðin næra og njóta pössuðu saman. En það er í raun upphafspunkturinn, og lokapunkturinn. Þú verður að finna leið sem fær þig til að njóta; þetta verður að vera ánægjulegt ferðalag.“

Foreldrar fyrirmyndin

Flest okkar þekkja að detta stundum í óholla fæðu, skyndibita og sælgæti.

„Ef við hugsum um vellíðan og að njóta, og þótt við sækjum í sukk, finnum við að okkur líður miklu betur þegar við borðum hollt að staðaldri. Sukkið er skammgóður vermir þótt það sé ekkert hættulegt að leyfa sér slíkt annað slagið,“ segir hún og segir einnig að samvera á matmálstímum geti skipt ótrúlega miklu máli.

„Rannsóknir sýna að fæðuval barna og unglinga er betra ef þú borðar oftar með fjölskyldunni en ef þú borðar utan veggja heimilisins. Foreldrar eru sterkasta fyrirmyndin,“ segir hún.

Að gefa sig að matnum

Hver eru helstu mistök fólks varðandi matarvenjur?

„Að gefa sér ekki tíma. Að gera ekki ráð fyrir hvað matur þarf í raun að taka mikið rými. Þú þarft tíma til að borða, skipuleggja og elda. Stundum heyrir maður fólk segja að það hafi bara ekkert borðað allan daginn, en ef maður fer að skoða það nánar, kemur í ljós að það var að borða á hlaupum, og jafnvel innbyrða meiri og óhollari orku en þegar sest er niður og borðað. Þetta meðvitundarleysi verður til þess að þú upplifir ekki seddu og ekki hungur og þú upplifir ekki nautn við að borða því þú ert ekki með hugann við það. Það þarf tíma og það þarf að gefa sig að matnum,“ segir Anna Sigríður og segir rannsóknir sýna að fólk verji minni tíma en áður við matargerð og að borða.

„Samt borðum við meira.“

Ítarlegt viðtal er við Önnu Sigríði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert