Tilkynnt var um tvö flugeldaslys í Reykjavík um hálfáttaleytið í gærkvöldi. Fyrst hlaut 15 ára piltur andlitsbruna eftir að flugeldur sprakk framan í hann í hverfi 103. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar.
Seinna slysið varð þegar 13 ára piltur hlaut áverka á hendi og andliti eftir að flugeldur sprakk í hendi hans. Unglingurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um eignaspjöll í Grafarvogi skömmu eftir miðnætti vegna skemmdarverka með flugeldum. Póstkassi í fjölbýlishúsi var skemmdur og rúða brotin í skóla.
Afskipti voru höfð af 14 ára unglingsstúlku vegna vörslu fíkniefna um hálfáttaleytið í gærkvöldi. Málið var unnið með aðkomu móður og tilkynningu til barnaverndar.
Um hálfníuleytið í gærkvöldi var veitingahús í miðbæ Reykjavíkur heimsótt þar sem tilkynnt hafði verið um of marga gesti á staðnum. Um brot gegn samkomubanni var að ræða. Tvö hólf voru á staðnum en of margir gestir í báðum hólfum.
Laust fyrir klukkan hálftólf datt ung kona á rafskútu og skall með höfuðið í gangstéttarbrún. Konan mun hafa rotast og þegar hún raknaði við sér var minnið slitrótt. Hún náði að komast heim en sjúkrabíll sótti hana þangað og færði á bráðadeild.
Lögreglumenn urðu vitni að umferðarslysi í Kópavogi um klukkan hálftíu í gærkvöldi þegar ökumaður bifreiðar ók á ljósastaur. Maðurinn er grunaður um ölvun við akstur.
Ökumaður bifreiðar var handtekinn í Breiðholti um hálfþrjúleytið í nótt grunaður um umferðaróhapp, ölvun við akstur og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í Kópavogi um hálffjögurleytið. Bifreið var ekið á vegrið og síðan af vettvangi. Skráningarnúmer bifreiðarinnar varð eftir á vettvangi og fannst hún skömmu síðar þar sem henni hafði verið lagt í bifreiðastæði og ökumaðurinn farinn.