Aðalmeðferð í máli gegn konu á sextugsaldri, sem sökuð er um að hafa nýtt sér bága stöðu heilabilaðra systra á tíræðisaldri í árabil og dregið af þeim tugmilljónir, hefur verið frestað um tvo mánuði vegna sóttvarnaráðstafana, en aðalmeðferðin átti að hefjast í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þá var þætti eiginmanns konunnar um peningaþvætti með því að hafa tekið við ávinningi af brotum konunnar, vísað frá dómi.
Rúv greindi frá því í dag að þætti eiginmannsins hefði verið vísað frá dómi og staðfestir Finnur Vilhjálmsson saksóknari í málinu það við mbl.is. Segir hann að þætti mannsins hafi verið vísað frá dómi án kröfu í lok ágúst eftir málflutning um þann þátt málsins. Ákæruvaldið hafi jafnframt unað þeim úrskurði. Málið í dag snúi því aðeins að konunni og meintum fjárdrætti hennar.
Aðalmeðferð málsins átti að hefjast í morgun, en gert var ráð fyrir um 30 vitnum og að aðalmeðferð myndi standa yfir í þrjá daga. Ekkert varð þó að því, enda voru sóttvarnarreglur hertar í síðustu viku. Er málið nú komið á dagskrá dagana 22. til 24. mars.
Finnur staðfestir við mbl.is að ekki hafi orðið frekari breytingar á sakargiftum gegn konunni í meðferð málsins hingað til, en það var þingfest í júní árið 2020. Samkvæmt ákæru sem mbl.is hefur undir höndum er konan talin hafa dregið af systrunum fé, tekið lausafjármuni þeirra ófrjálsri hendi, fengið systurnar til að útbúa erfðaskrá sem léti allar þeirra eigur renna til konunnar að frádreginni einni miljón króna við andlát þeirra og fleira.
Báðar systurnar glíma við heilabilun, en eldri systirin hefur um árabil verið háð ákærðu vegna versnandi heilsufars og trúnaðarsambands við hana. Yngri systirin hefur dvalið á deild fyrir heilabilaða frá árinu 2006. Vegna heilabilunar sinnar hefur hún verið ófær um að taka ákvarðanir um fjármál sín um árabil og fékk ákærða umboð til að annast fjármál hennar árið 2012.
Systurnar hafi verið nánar í gegnum tíðina en þær eru báðar barnlausar og ógiftar og eiga samtals fimm íbúðir í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Systurnar áttu enga skylduerfingja og höfðu áður gert sameiginlega erfðaskrá sem kvað á um að allar eigur þeirra skyldu renna í sjóð fyrir unga listamenn. Síðar hafi ný erfðaskrá verið gerð þar sem kom fram að sú langlífari myndi erfa hina, en að þeim báðum látnum skyldu allar eignir systranna renna til konunnar, að frátalinni einni milljón króna.
Í ákæru málsins kemur fram að konan hafi á árunum 2012 til 2017 jafnframt tekið út 75 milljónir króna af reikningum yngri systurinnar í krafi fyrrnefnds umboðs. Var um að ræða 2.166 tilvik þar sem 23,3 milljónir voru notaðar í eigin þágu og fjölskyldu sinnar. Í kærunni kemur fram að ákærða hafi til að mynda notað fjármuni systurinnar til að greiða fyrir leigubílaþjónustu, fatnað í Hugo Boss, máltíð í Luxemborg og fleira. Í önnur 34 skipti voru samtals 52 milljónir teknar út í reiðufé eða með gjaldeyriskaupum.
Konan er jafnframt sökuð um að hafa látið eldri systurina greiða fyrir sig Visa-reikninga upp á tæpar fjórar milljónir, auk þess að hafa látið greipar sópa í íbúðunum fimm og farið með lausafjármuni, svo sem málverk, pels og fleira á eigið heimili.
Gerir ákæruvaldið meðal annars kröfu um að húseign hjónanna, Audi Q7-jeppi og listmunir eftir Ásmund Sveinsson, Jóhannes Kjarval og Einar Jónsson verði dæmdir upptækir.