„Nú hefur Háskólinn á Akureyri einnig boðið fleiri nemum áframhaldandi pláss í hjúkrunarfræði,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólamálaráðherra á facebook-síðu sína. Fetar HA þar með í fótspor Háskóla Íslands þar sem ákveðið hefur verið að fleiri fyrsta árs nemendur komist í gegnum samkeppnispróf við deildina en fyrst var gert ráð fyrir.
Háskólunum barst ákall frá heilbrigðisráðuneytinu og Landspítalanum.
Að sögn Sigríðar Síu Jónsdóttur, forseta heilbrigðisvísindsviðs HA, átti að hleypa 75 nemendum í gegn í ár. Háskólinn ákvað hins vegar að svara ákallinu og tók inn fjóra til viðbótar og var þar með öllum með tilskilinni einkunn hleypt í gegn.
Áslaug Arna skrifar enn fremur á facebook að hún hafi átt gott samtal við Háskólann á Akureyri og taldi mikilvægt að sama gildi í báðum skólum og um sérstakt ánægjuefni sé að ræða.