Dræm mæting meðal leikskólabarna

Börn fædd árið 2016 voru boðuð í bólusetningu gegn Covid-19 …
Börn fædd árið 2016 voru boðuð í bólusetningu gegn Covid-19 í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Janssen-þegar fjölmenntu Laugardalshöll í dag þar sem stóð til boðar fyrir þá að þiggja sinn þriðja skammt af bóluefni gegn Covid-19 sjúkdómnum. Annað var þó uppi á teningnum hvað varðar mætingu meðal leikskólabarna en að sögn Dagnýjar Hængsdóttur, verkefnastjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, var hún afar dræm. 

Þegar blaðamaður náði tali af Dagnýju höfðu um 120 börn fengið sinn fyrsta skammt af bóluefni í dag og var hluti þeirra grunnskólabörn sem sáu sér ekki fært að mæta í síðustu viku. Verður sú mæting að teljast dræm ef miðað er við mætingarhlutfall fyrri daga.

Alls fengu þó um tvö þúsund manns bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu en góð mæting hefur verið í örvunarbólusetningu í dag eins og áður sagði.

Janssen-þegar fjölmenntu Laugardalshöll.
Janssen-þegar fjölmenntu Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gekk vel engu að síður

Bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára hófust síðasta mánudag og voru þá grunnskólabörn boðuð. Var mætingin þá í kringum 70% eða svipuð og meðal barna á aldrinum 12 til 15 ára að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Endanlegar tölur liggja þó ekki enn fyrir en búist er við þeim á næstu dögum.

Í þessari viku hefur yngsti árgangurinn, börn fædd 2016, verið boðaður en þau eru flest fimm ára gömul. Voru það börn fædd í janúar og febrúar sem máttu mæta í dag en alls hafa 2.700 börn verið boðuð í vikunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir lélega mætingu segir Dagný bólusetningarnar hafa gengið mjög vel. Þá hefur enn ekki borið á mótmælum fyrir utan höllina og er starfsfólkið þakklátt vegna þess.

Dagný Hængsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir bólusetningarnar hafa …
Dagný Hængsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir bólusetningarnar hafa gengið vel þrátt fyrir dræma mætingu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert