Gæti valdið hneykslun og sært réttarvitund almennings

Fólkið var handtekið í september og hefur sætt varðhaldi síðan.
Fólkið var handtekið í september og hefur sætt varðhaldi síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kona sem ákærð var ásamt karli í stórfelldu kókaínmáli þarf að sitja í gæsluvarðhaldi áfram til 8. febrúar. Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms. Fólkið er undir sterkum grun að hafa staðið að innflutningi á tæplega fjórum kílóum af kókaíni ásamt því að hafa haft í vörslum sínum umtalsvert magn af MDMA.

Fólkið sendi bifreið með flutningaskipi frá Danmörku til Íslands í september á síðasta ári. Fundust þau við tollskoðun falin í gólfi bifreiðarinnar og skipti lögreglan fíkniefnunum út fyrir gerviefni. Sóttu konan og maðurinn bílinn svo á tollsvæði Smyril line í Þorlákshöfn og óku henni til Reykjavíkur. Daginn eftir voru þau svo bæði handtekin með pakkningar af gerviefni í bakpoka.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að um mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Geti meint brot varðað allt að 12 ára fangelsi og varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, en „telja verður að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og ákærða, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert