Heppni að ekki hafi orðið stórslys þarna

Vegurinn um Súðavíkurhlíð. Mynd úr safni.
Vegurinn um Súðavíkurhlíð. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er algjörlega óviðunandi ástand,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, en veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. Áður en veginum var lokað hafði flóð fallið á bíl, sem náði að komast í gegnum það.

Birgir segir það mikla mildi að ekki hafi orðið alvarleg slys undanfarin ár í hlíðinni en snjóflóðahættan er viðvarandi á veturna.

„Síðan er þarna grjóthrun á sumrin en heilu björgin hrynja niður,“ segir Birgir og bendir á að lengi hafi verið kallað eftir úrbótum sem felist í jarðgöngum.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

„Auðvitað er þetta leiðin okkar suður og þetta er líka eitt atvinnusvæði og Súðvíkingar sækja mikið hingað,“ segir Birgir og heldur áfram:

„Það er alveg galið að hafa þetta svona. Alveg stórhættulegt.“

Birgir segir það bara heppni að ekki hafi orðið stórslys á veginum en fólk á svæðinu beiti ríkisvaldið og Vegagerðina stanslausum þrýstingi til að farið verði í úrbætur.

„Vestfjarðastofa hefur líka þrýst á þetta en það hefur lítið sem ekkert gerst. Í mínum huga felst lausnin í göngum hérna á milli en Vegagerðin hefur talað frekar talað fyrir því að fara í úrbætur á veginum með því að reka niður stálþil á verstu stöðunum og færa veginn jafnvel meira út í sjó á köflum. Það verður eitthvað að gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert