Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) krefja SÁÁ um tæplega 175 milljónir króna vegna tilhæfulausra reikninga og vanefnda á þjónustu og þjónustumagni. Þetta segir í bréfi frá Ara Matthíassyni, deildarstjóra eftirlitsdeildar SÍ, er sent var til Einars Hermannssonar, stjórnarformanns SÁÁ, þann 29. desember.
mbl.is greindi frá því fyrr í kvöld að málið hefði borist héraðssaksóknara sem rannsakar nú starfshætti SÁÁ.
Bréf SÍ tekur til fjölmargra atriða svo sem tilhæfulausra reikninga sem sendir voru SÍ vegna fjarþjónustu SÁÁ, endurgreiðslu á föstu mánaðargjaldi vegna tilhæfulausrar lokunar fyrir staðþjónustu á tímabilinu október til desember 2020 og endurkrafna vegna unglingadeildar SÁÁ.
Þá eru svör SÁÁ, sem birtust í bréfi dagsettu 25. júní, vegna viðvörunar og endurkröfu SÍ birt. SÍ telur að ekkert í svörum SÁÁ breyti niðurstöðu málsins.