Tvö teymi skipuð svæfingalæknum og hjúkrunarfræðingum á vegum Orkuhússins tóku til starfa á Landspítalanum í dag og munu starfa þar í að minnsta kosti viku.
Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuhússins, segir samvinnuna fara vel af stað en skipulagi um framkvæmd hennar lauk um helgina.
Greint var frá því á laugardag að Sjúkratryggingar Íslands hefðu samið við Orkuhúsið um að útvega lækna og hjúkrunarfræðinga til starfa á Landspítala. Er þessi liðstyrkur til viðbótar við þann sem Landspítali fær frá starfsfólki hjá Klíníkinni í Ármúla en það hefur þegar hafið störf á spítalanum.
Mun Landspítali njóta liðsinnis starfsfólks á vegum Orkuhússins næstu tíu daga og verða teymin ýmist tvö eða eitt.
„Þetta er misjafnt eftir dögum. Við erum með tvö teymi í sjö daga og eitt teymi í þrjá daga sem koma til aðstoðar,“ segir Dagný og bætir við að í hverju teymi fyrir sig séu tveir hjúkrunarfræðingar og einn svæfingalæknir. Starfa þau öll í dagvinnu.
„Landspítali metur hvar mest þörfin er. Þau eru bara sett í þau verkefni þar sem brýnasta þörfin er og auðvelt er að færa fólk inn í með skömmum fyrirvara.“
Aðspurð segir Dagný til skoðunar hvort lengja megi samninginn frekar en staða Landspítalans sé í stöðugri skoðun.
„Mér skilst á SÍ að þeir séu að tala við fleiri fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum og svo er verið að skoða hvort það sé möguleiki á framlengingu.“