Undanfarin ár hefur Guðrún Ingólfsdóttir rannsakað bókmenningu og handritaeign. Í bókinni Skáldkona gengur laus beinir hún sjónum að kveðskap eftir lítt þekktar eða óþekktar konur.
Guðrún ritaði doktorsritgerð um handritasyrpur, handrit sem geyma fjölþætt efni, þar sem einn hugur, skrifari eða eigandi, mótar hvert handrit. Sú ritgerð kom út 2011 og nefnist „Í hverri bók er mannsandi“, Handritasyrpur, bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld. Fyrir fjórum árum kom síðan út bókin Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar — Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld, sem hlaut meðal annars Menningarverðlaun DV, og á síðasta ári kom svo bókin Skáldkona gengur laus — Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn þar sem hún fjallar um fjórar skáldkonur sem eru lítt þekktar eða óþekktar.
— Þú tekur fjórar konur fyrir í bókinni, Kristínu Guðmundsdóttur, Kristrúnu Jónsdóttur, Sigríði Andrésdóttur og Guðrúnu Þórðardóttur, sem höfðu mjög mismunandi þjóðfélagsstöðu og áttu mjög mismunandi ævi. Mest fjallar þú svo um Guðrúnu, sem var töluvert skáld, eins og sjá má á ljóðum hennar.
„Þetta eru mjög flottar skáldkonur. Guðrún á stærsta og fjölþættasta safnið og kveðskapur hennar er af öllu tagi. Sumt er gott, annað frábært, en það er eins og ef maður skoðar kveðskap karla þá er þetta eins, þeir eru ekki alltaf upp á sitt besta. Menn sigla mismunandi sjó.
Sigríður Andrésdóttir og Kristín Guðmundsdóttir yrkja nánast eingöngu ljóð af trúarlegum toga og myndu báðar sóma sér í sálmabókum, sérstaklega safnið hennar Sigríðar, hún yrkir sálma, andleg kvæði og erfikvæði. Þær Sigríður og Kristín voru báðar ógiftar og barnlausar og Sigríður bjó með ráðsmanni sem skrifaði allt upp eftir henni. Skáldbróðir Sigríðar skrifaði síðan upp allt sem ráðsmaðurinn hafði skrifað og bjó til ofsalega fallegt safn; fimmtíu sálma, tuttugu og fimm erfikvæði og tuttugu og fimm andleg kvæði. Svo er fyrsti sálmurinn Upp, upp mín sál og andi, þannig að hann er að leiða okkur inn á að hún á vera í samræðum við hið mikla trúarskáld, Hallgrím Pétursson.
Kristín Guðmundsdóttir var meðal fyrstu sjúklinganna sem lögðust inn á Holdsveikraspítalann í Laugarnesi og stóð á neðsta þrepi samfélagsins, var ómagi alla tíð. Hún yrkir eingöngu inn í þetta rými Holdsveikraspítalans; við erum leidd in á spítalann, svo kynnumst við sjúklingunum, hún yrkir erfikvæði um suma þeirra og svo yrkir hún kvæði sem þeir geta haft gagn af.
Kristrún Jónsdóttir er fyrst og fremst þekkt fyrir það að hafa verið kærasta Baldvins Einarssonar og hafa verið svikin af honum. Í kveðskap hennar birtist mjög írónísk persóna og eitt af því sem mér fannst ótrúlega merkilegt er að sjá vísur þar sem hún rís upp og talar um kynferðislega áreitni. Ég hef aldrei séð það hjá nafngreindri skáldkonu fyrr. Hún er ekki að skamma hvaða karla sem er, hún er að skamma húsbændur sem misbeita valdi sínu. Á þessum tíma, þó hún sé prestsfrú, og geti talað svolítið útúr þeim ranni, hefur þurft fjandi mikinn kjark til að rísa upp.“