Nýtt fjölnota íþróttahús sem er staðsett í Vetrarmýri í Garðabæ mun bera heitið Miðgarður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæ.
Fram kemur, að Garðabær hafi haustið 2021 efnt til nafnasamkeppni um nafn á nýja fjölnota íþróttahúsinu í Garðabæ sem var öllum opin og íbúar hvattir til að taka þátt í. Dómnefnd í nafnasamkeppninni var skipuð þeim Almari Guðmundssyni, Björgu Fenger og Baldri Ó. Svavarssyni, fulltrúum bæjarstjórnar í undirbúningsnefnd um byggingu hússins. Dómnefndinni til ráðgjafar var Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknarlektor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Jafnframt störfuðu þau Kári Jónsson íþrótta- tómstunda- og forvarnarfulltrúi og Sunna Stefánsdóttir samskipta og kynningarfulltrúi Garðabæjar með dómnefndinni.
„Alls bárust um 250 mismunandi tillögur um nafn á húsinu sem dómnefnd valdi svo úr. Niðurstöður dómnefndar voru samþykktar af bæjarráði Garðabæjar í janúar 2022. Hugmyndirnar sem bárust voru frumlegar og skemmtilegar. Örnefni í nágrenni íþróttahússins ásamt tengingum við önnur heiti á mannvirkjum og stöðum í Garðabæ voru þó greinilega ofarlega í hugum fólks. Alls voru 23 aðilar sem sendu inn tillögu um nafnið Miðgarð í nafnasamkeppninni,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir, að dómnefndinni hafi þótt tengingin við „Garða“ álitleg en mörg sérnöfn í Garðabæ bera þá tengingu. Tengsl við goðafræðina og þar með við Ásgarðssvæðið taldi dómnefndin einnig skemmtilega en með því kallast tvö af íþróttasvæðum bæjarins á við hvort annað. „Samkvæmt goðafræðinni er Miðgarður miðja heimsins og sá staður þar sem mannfólkið býr. Það rímar vel við hugmyndir um fjölnota íþróttahúsið þar sem vonast er eftir lífi og fjöri á degi hverjum ásamt því að þar verður rými fyrir fjölbreytt viðfangsefni. Þeir 23 aðilar sem komu með tillögu að nafninu Miðgarður munu hljóta viðurkenningu,“ segir ennfremur.
Miðgarður er með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð og klifurvegg innanhúss auk teygju- og upphitunaraðstöðu og fyrsta flokks styrktar- og þrekæfingaaðstöðu, ásamt tilheyrandi stoðrýmum og verður því mikil lyftistöng fyrir íþrótta- og heilsueflandi starfsemi í bænum, segir jafnframt.