Sjö manna stjórn starfi sem æðsta vald spítalans

mbl.is/Unnur Karen

Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu sem kveður á um skipan sjö manna stjórn Landspítala. Stjórninni verði ætlað að starfa sem æðsta vald innan stofnunarinnar og eiga ríkt samstarf við forstjóra stofnunarinnar sem og ráðherra heilbrigðismála.

Fram kemur á vef heilbrigðisráðuneytisins, að frumvarpið sé liður í innleiðingu þeirra áherslumála sem fram komi í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs „en í stjórnarsáttmála kemur fram að staða og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verði styrkt og sérstök áhersla lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Er stjórn spítalans ætlað að gegna stefnumarkandi hlutverki í þeirri þróun. Umsagnarfrestur er til 31. janúar næstkomandi,“ segir í tilkynningu. 

Stjórnin marki langtímastefnu og sé æðsta vald

Þar segir einnig, að markmið frumvarpsins sé að styrkja stjórn stærstu heilbrigðisstofnunar landsins, Landspítala, með því að veita lagastoð fyrir því að stjórn verði skipuð yfir spítalann sem gegni því hlutverki að tryggja frekari faglegan rekstur spítalans.

„Helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru að stjórn verði sett á stofn yfir Landspítala. Stjórninni verði ætlað að starfa sem æðsta vald innan stofnunarinnar og eiga ríkt samstarf við forstjóra stofnunarinnar sem og ráðherra heilbrigðismála um stefnu og rekstur stofnunarinnar. Stjórninni er ætlað að marka stofnuninni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra en einnig að staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun hennar og fjárhagsáætlun. Í þessu felst enn fremur að stjórninni sé ætlað að bera ábyrgð á framkvæmd innra eftirlits innan Landspítala með reglubundnum aðgerðum og ráðstöfunum til að stuðla að hagkvæmni í rekstri, öryggi fjármuna, áreiðaleika upplýsinga og að markmiðum starfseminnar sé náð,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert