Skoða forsendur fyrir afléttingum með spítalanum

„Við erum ekki að reyna að vinna bug á þessu, …
„Við erum ekki að reyna að vinna bug á þessu, við erum að tempra út­breiðsluna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sem stendur eru, að sögn sóttvarnalæknis, ekki forsendur fyrir afléttingum sóttvarnaaðgerða en sóttvarnayfirvöld ætla að skoða tölur um innlagnir og alvarleika veikinda sem geta þá hjálpað til við að taka ákvörðun um framhaldið. Hann segir ekki markmiðið að vinna bug á faraldrinum heldur að tempra útbreiðslu kórónuveirunnar. 

1.080 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. „Þetta er voðalega stöðug tala alltaf á milli daga. Þetta er ekki að fara upp þannig að við erum bara áfram í þessum sömu sporum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Fyrir helgi voru kynntar harðar aðgerðir í samfélaginu, þeirra á meðal 10 manna samkomutakmörk.  

Eru aðgerðirnar ekki í mótsögn við það að Ómíkron-afbrigðið veldur síður alvarlegum veikindum en fyrri afbrigði?

„Það er ekkert í mótsögn við það. Við erum að tala um miklu meiri útbreiðslu. Þannig að við getum lent í því að vera með mikinn fjölda sem leggst inn jafnvel þó hlutfallið sé miklu lægra. Við erum aftur á móti alltaf að fara í gegnum það sem er verið að gera og hvort við höfum forsendur til þess að slaka á eða gera hlutina einhvern veginn vægari. Nú erum við farin að fá aðeins meiri reynslu af þessu ómíkron-afbrigði svo við erum að skoða með Landspítalanum tölurnar varðandi innlagnir og alvarleika sjúkdómsins sem munu hjálpa okkur að ákveða áframhaldið, þegar við fáum niðurstöður,“ segir Þórólfur.

Þrír hópar sem þurfa spítalainnlögn

Hann bendir á að áfram sé að bætast í hóp þeirra sem eru inniliggjandi á Landspítala með Covid. Fólkinu sem er inniliggjandi er hægt að skipta í þrjá hópa.

  1. Fólk sem leggst inn vegna alvarlegra veikinda af völdum Covid-19
  2. Fólk sem er inniliggjandi á Landspítala vegna annarra ástæðna og greinist smitað inni á spítalanum
  3. Fólk sem greinist smitað við innlögn vegna annarra veikinda

„Við þurfum að skoða vel þessa hópa, hvernig þeim reiðir af innan spítalans, hvort þeir séu að segja okkur eitthvað meira um alvarleika sjúkdómsins núna vegna þess að nú er ómíkron-afbrigðið orðið allsráðandi og hvernig það getur hjálpað okkur í áframhaldinu varðandi alvarlegar afleiðingar,“ segir Þórólfur.

Er búið að taka saman hve stór hluti er í hverjum hóp?

„Nei, ég er ekki með upplýsingar um það. Það er hluti af því sem við þurfum að skoða með Landspítalanum svo það sé hægt að leggja betra mat á alvarleikann vegna þess að við höfum alltaf sagt að það sem stýrir aðgerðum er það hversu margir þurfa að leggjast inn á spítala og hvernig þeim reiðir af og svo fram vegis, ekki endilega fjöldi smita í samfélaginu. En því fleiri sem smitast í samfélaginu: því fleiri þurfa að leggjast inn, jafnvel þó hlutfallið sé lágt.“

Fólk með alls konar sjúkdóma sem þolir Covid-19 illa

Þórólfur bætir því við að nokkrir einstaklingar hafi veikst mjög alvarlega sem hafa greinst smitaðir inni á spítalanum.

Hefur þetta fólk verið að veikjast alvarlega af Covid-19?

„Þetta er fólk með alls konar sjúkdóma; hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma nýrnasjúkdóma eða annað og þola þess vegna mjög illa Covid-smit og geta farið illa þó þeir séu að smitast inni á spítalanum.“

Þórólfur segir fjóra til sjö einstaklinga þurfa að leggjast inn vegna Covid-19, eða greinast smitaðir á spítalanum eða við innlögn daglega. Þá útskrifast um fjórir daglega. Hann segir fjöldann á gjörgæslu nokkuð stöðugan.

„Við þurfum að sjá aðeins betur mynstrið áður en við getum fullyrt um að þetta sé bara allt í lagi og við getum hætt í þessum aðgerðum eins og staðan er núna.“

Frétt af mbl.is

Harðari takmarkanir í gildi í Danmörku og Noregi áður en létt var

Stjórnvöld í Danmörku og víðar hafa ákveðið að létta á aðgerðum, hvers vegna telur þú aðra nálgun passa hér?

„Menn þurfa að skoða hvaða takmarkanir voru í gangi í Danmörku og Noregi. Þar eru búnar að vera í gangi harðari takmarkanir en hér þannig að þeir eru á undan okkur í þessu. Svo þurfa þeir að meta út frá sinni getu, spítalakerfisins og annað, hvað þeir þola mikið. Það er mjög mikil einföldun að horfa bara til einhverra landa og segja að þau séu að aflétta og þá hvers vegna við getum ekki aflétt líka. Þannig að við verðum bara að skoða stöðuna hér, eins og þau eru að gera í sínum löndum, og meta stöðuna, hvort það sé ásættanlegt að gera það eða ekki.“

Ráðuneytið vill ekki loka skólum

Nú eru skólarnir opnir og það er einmitt fólk á skólaaldri sem er helst smitað, þarf ekki að loka skólum eða grípa til harðari aðgerða þar ef eitthvað á að gerast?

„Ráðuneytið hefur hafnað því. Stjórnvöld hafa sagt mjög skýrt að þau muni leggja kapp við það að halda skólunum opnum.“

Finnst þér það skynsamlegt?

„Út frá mörgum sjónarhornum er það skynsamlegt að reyna að halda börnunum í skólunum og í sinni rútínu en við erum náttúrulega með dálítið mörg smit innan skólanna og við erum náttúrulega að reyna að bólusetja til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Vonandi mun það skila því að við fáum gott hjarðónæmi í þessum hópi án alvarlegra veikinda.“

Erum ekki að reyna að vinna bug á faraldrinum

Er hægt að vinna bug á þessu án þess að loka skólum?

„Við erum ekki að reyna að vinna bug á þessu, við erum að tempra útbreiðsluna. Við erum að reyna að hægja á henni. Ef við fáum ekki mikið af alvarlegum veikindum inn á spítalann, ef það helst innan marka þá erum við á þeirri leið sem við þurfum að vera á, við erum á þessari temprunarleið, við erum ekki að reyna að bæla þetta alveg niður. Það er alveg vonlaust nema með einhverjum meiriháttar tilfæringum. Ég held að það sé enginn tilbúinn í það.“

Frétt af mbl.is

Í minnisblaðinu vegna síðustu aðgerða sagðir þú að eitt af markmiðunum að ná smitfjöldanum niður í 500. Er ekki hætt við að ef aðgerðum verði létt í kringum þann fjölda lendum við fljótlega aftur í sama fari?

„Það vitum við náttúrulega ekki neitt um og það er ómögulegt að segja eitthvað til um það. Ef við erum að miða við það hlutfall sem þarf innlögn á spítalann þá höfum við fengið þessa tölu 500. Er hugsanlegt að talan sé hærri? Er hugsanlegt að hlutfall alvarlega veikra sé lægra heldur en þessi 0,3%? Það er ekki ljóst. Við erum bara fyrst núna að fá almennilega reynslu af þessu Ómíkron-afbrigði. Þess vegna er þetta allt í endurskoðun. Við getum ekki breytt því sem við erum að gera nema að hafa einhverjar góðar forsendur fyrir því. Þær forsendur fáum við með því að skoða tölurnar og rýna í gögnin sem við höfum.“

Fólk sem smitast, er ekki fyrirhugað að það muni geta fengið að vita hvaða afbrigði það hafi smitast af?

„Við höfum verið að reyna að útbúa þannig kerfi að þau fái það en smitrakningin er töluvert langt á eftir vegna þessa mikla fjölda. Það er ekki víst að það takist alveg nógu hratt svo fólki líki en þetta er allt í vinnslu. Hugmyndin var sú að koma þessum upplýsingum inn í Heilsuveru svo fólk geti séð það þar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka