Embætti héraðssaksóknara hefur borist mál er varðar starfshætti SÁÁ frá eftirlitsdeild Sjúkratrygginga Íslands. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is.
Ólafur segir að málið hafi borist embættinu í síðustu viku og er nú til skoðunar. Hann gat ekki upplýst frekar um eðli málsins á þessu stigi en Stundin greindi fyrst frá.
Í frétt Stundarinnar segir að málið snúist meðal annars um þúsundir reikninga sem ráðgjafar SÁÁ sendu til Sjúkratrygginga Íslands sem eftirlitsdeildin segir vera tilhæfulausa. Þá eru gerðar alvarlegar athugasemdir við meðferð á sjúkraskrám.