Sigtryggur Sigtryggsson
Alþingi kemur saman klukkan 15 í dag að loknu jólaleyfi þingmanna. Þinginu var frestað 28. desember.
Ýtrustu sóttvarna er áfram gætt, segir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis. Þingmenn og starfsfólk fara í sýnatökur fyrir hádegi í dag og gert er ráð fyrir að þær verði framkvæmdar tvisvar í viku.
Nefndafundir fara fram í fjarfundi, gestakomur eru ekki leyfðar og starfsfólk sem það getur vinnur heima. „Við erum í samstarfi og samráði við embætti sóttvarnalæknis og almannavarna um fyrirkomulagið hér,“ segir Ragna.
Þingmenn hafa ekki sótt fundi erlendis frá því í nóvember. Fundarsókn erlendis fer eftir ákvörðunum alþjóðlegra þingmannasamtaka um hvort fundir fari fram sem staðfundir eða í fjarfundarformi og ríkir óvissa um slíkt fundarhald á næstu vikum og mánuðum að sögn Rögnu.
Á þingfundinum í dag eru átta mál á dagskrá. Hann hefst á óundirbúnum fyrirspurnum en þar verða til svara forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.