Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra grafa undan sjálfstæði Persónuverndar með bréfi sem hún sendi Kára Stefánssyni, forstjóra íslenskrar erfðagreiningar, fyrr í mánuðinum.
Þórhildur spurði Katrínu út í bréfið á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma en bréfið snýr að úrskurði Persónuverndar um að Íslensk erfðagreining hafi brotið lög.
Málið snýr í megindráttum að því að sóttvarnalæknir tók þá ákvörðun í samráði við Íslenska erfðagreiningu að kanna hversu stór hundraðshluti landsmanna hefði myndað mótefni við veirunni. Skoðað var þá mótefni í blóði þeirra sem höfðu smitast og sýkst alvarlega og því voru tekin sýni úr einstaklingum sem lágu sýktir inni á Landspítala.
Á föstudag birtist grein á Vísi eftir Kára þar sem hann birti afrit af bréfi frá Katrínu þar sem hún segir úrskurð Persónuverndar hafi komið henni verulega á óvart.
Þá segist Katrín í bréfinu vera „sammála því mati sóttvarnalæknis að umrædd rannsókn og vinnsla persónuupplýsinga (blóðsýnatakan) hafi verið hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum, enda var hún unnin að beiðni sóttvarnalæknis og með Landspítalanum.“
Þórhildur sagði á Alþingi í dag að í úrskurði Persónuverndar hafi komið fram að blóðsýnatakan sé hvergi að finna í skrám Landspítalans og hún hafi þar af leiðandi ekki verið unnin með spítalanum.
Þórhildur sagði því að með bréfinu grafi Katrín undan sjálfstæði Persónuverndar.
„Ég velti fyrir mér hver tilgangurinn var með þessu bréfi og hvers vegna forsætisráðherra ákveður að tjá sig um afstöðu sína gagnvart úrskurði sjálfstæðrar stofnunar gagnvart forstjóra fyrirtækisins sem úrskurðurinn fjallaði um,“ sagði Þórhildur.
Í svari Katrínar sagði hún að það væri hennar skilningur að Landspítalinn hafi verið þátttakandi rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar og að hún byggi sínar upplýsingar annars vegar á samtölum við sóttvarnalækni og hinsvegar á upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytisins.
Þá undirstrikaði Katrín að framlag Íslenskrar erfðagreiningar væri „ómetanlegt“ í baráttu við heimsfaraldurinn.