Aukin hætta er á flóðum og skriðuföllum fyrir norðan og vestan þar sem gular veðurviðvaranir eru nú í gildi og verða fram eftir degi. Hvöss sunnanátt og talsverð rigning er á Vestfjörðum og Breiðafirði en sunnan- og suðvestanátt á Ströndum, Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra.
„Spáin er bara að ganga eftir. Það er að hvessa á norðvestanverðu landinu fram eftir morgni og orðin talsvert mikil rigning á bæði Breiðafirði og Vestfjörðum,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Búist er við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám á Vestfjörðum og Breiðafirði og er fólk hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón þar sem aukið álag er á fráveitukerfi.
Þá hefur víða snjóað um helgina og talsverður snjór er til fjalla á Norður- og Austurlandi. Töluverð hætta er á ofanflóði til fjalla og viðvaranir á appelsínugulustigi á norðanverðum Vestfjörðum, Tröllaskaga utanverðum, Eyjafjörður innanverðum og Austfjörðum.
Vetrarfærð er víða á landinu og varar Vegagerðin við asahláku.