Viðreisn vill skýringar á sóttvarnaaðgerðum

Hanna Katrín Friðriksson sendi bréfið fyrir hönd þingflokks Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson sendi bréfið fyrir hönd þingflokks Viðreisnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þingflokkur Viðreisnar kallar eftir því að ráðherrar, sérstaklega heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, gefi Alþingi skýrslu samdægurs eða eins fljót og auðið er í kjölfar þess að tilteknar sóttvarnaaðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda. 

Þetta kemur fram í bréfi þingflokksins til forseta Alþingis.

Sem stendur eru mjög harðar reglur í gildi vegna faraldursins, til að mynda 10 manna samkomutakmörk og tveggja metra nálægðarmörk.

Í nóvembermánuði árið 2020 setti þingflokkur Viðreisna fram sambærilega ósk; um að heilbrigðisráðherra gæfi Alþingi skýrslu hálfs mánaðarlega um sóttvarnaraðgerðir. Svandís Svavarsdóttir var þá heilbrigðisáðherra og varð hún við óskinni. Nú telur Viðreisn tilefni til að taka skýrslugjöf upp að nýju. 

„Óskað er eftir því að skýrslugjöfin feli í sér upplýsingar um forsendur að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni, um fyrirhugaðan árangur og áhrif á samfélagið að öðru leyti. Samtímis upplýsi ráðherrar Alþingi um hvort, og þá hvaða, aðgerðir verða lagðar fram til að mæta efnahaglegum og félagslegum afleiðingum sóttvarnaaðgerða hverju sinni. Með þessu móti fá forsendur og röksemdir stjórnvalda hverju sinni markvissari umræðu á vettvangi þingsins,“ segir í bréfi Hönnu Katrínar Friðriksson, þingflokssformanns Viðreisnar, til forseta Alþingis.

Nauðsynlegt að gagnrýni fái að eiga sér stað

Viðreisn telur að á hinum pólitíska vettvangi hafi kastljósinu að mestu verið beint að samspili og valdmörkum milli heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis.

„Önnur grundvallarspurning varðar hins vegar samspil Alþingis og ráðherra. Það er ekki aðeins réttur þings að lýðræðisleg umræða fari fram um sóttvarnaráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem hafa gríðarleg áhrif á samfélagið í heild sinni heldur er það beinlínis skylda þingsins að ræða þær og rækja þannig eftirlitshlutverk sitt gagnvart stjórnvöldum,“ segir í bréfinu.

„Þessi skylda og réttur þingsins er enn ríkari þegar ástandið hefur varað svo lengi sem raunin er og nauðsynlegt er að gagnrýnin umræða fái að eiga sér stað. Forsenda þess að Alþingi geti sinnt þessu hlutverki sínu er hins vegar markviss upplýsingagjöf ríkisstjórnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka