Umhverfisstofnun endurnýjaði á dögunum starfsleyfi líftæknifyrirtækisins Ísteka ehf. sem vinnur hormónalyf fyrir svín úr blóði fylfullra mera. Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir endurnýjun starfsleyfisins mikið fagnaðarefni.
Áréttar hann þó að starfsleyfið taki aðeins til fræðilegrar hámarksafkastagetu verksmiðju fyrirtækisins en ekki áætlana þess um stækkun.
„Það stendur ekki til að auka blóðsöfnun að neinu nálægt þeim mörkum sem starfsleyfi Umhverfisstofnunar kveður á um.“
Vöxtur blóðsöfnunar seinustu ára hafi að langmestu leyti verið innan þess mengis stóðhryssna sem þegar séu haldnar í landinu en fjöldi þeirra virðist hafa verið ansi stöðugur í yfir áratug, að sögn Arnþórs.
„Fjölgun blóðhryssna hingað til hefur m.ö.o. orðið án teljandi áhrif á stofnstærð og þar með vistspor. Í dag gefa flestar stóðhryssur landsins blóð auk þess að skila bónda folaldi og því tel ég að mikil stækkun umfram það sem þegar er sé ólíkleg.“
Þá segir hann atvinnuveganefnd hafa borist fjölda umsagna vegna útgáfu starfsleyfisins sem séu margar hverjar athyglisvert innlegg í umræðuna.
„Ég bendi sérstaklega á að sauðfjárbændur í Evrópu stóla á lyfið sem við framleiðum m.a. í ræktunarstarfi til að vinna á móti alvarlegum sjúkdómum í sauðfé sem við þekkjum vel til eins og riðu og mæði eða visnu. Þá koma not þess í veg fyrir óþarfa slátrun gripa í fleiri búgreinum og stuðla að ýmiskonar öðrum bótum í búskap og dýravelferð.“
Í desember síðastliðnum tilkynnti Ísteka að fyrirtækið hafi ákveðið rifta samningum við nokkra bændur sem sýndir voru fara illa með hross við blóðtöku í myndskeiði svissnesku dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation (AWF) og Tierschutzbund Zürich (TBZ) sem fór í dreifingu í sama mánuði.
Fyrirtækið greindi þó ekki frá því hve marga bændur var um að ræða eða hvort það komi til greina að semja við þá á ný ef þeir bæta sig. Ekki hafa fleiri samningum verið rift síðan í desember, segir Arnþór inntur eftir því.
„En á seinustu árum hefur nokkrum samningum verið rift eins og áður hefur komið fram.“
Þá segist hann ekki vita til þess að meint dýraníð sem sést á myndskeiðinu umrædda hafi verið kærð til lögreglu ennþá. Matvælastofnun hafi þó hafið rannsókn á málinu en síðar vísað rannsókninni á lögreglu, m.a vegna ónógra gagna.
Í tilkynningu sem MAST sendi frá sér í byrjun janúar segir að stofnunin hafi óskað eftir frekari gögnum frá ofangreindum dýraverndarsamtökum sem gætu hjálpað við rannsóknina en að samtökin hafi ekki orðið við þeirri beiðni.
„Ég vona svo sannarlega að AWF standi við orð sín um að afhenda rannsóknaraðilum öll gögn málsins,“ segir Arnþór.