Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, reiknar ekki með því að samræmd próf verði haldin í vor.
„Samræmdum prófum var frestað og málið sett í ákveðna vinnslu til framtíðar, eftir að síðasta próftaka fór ekki eins og við vildum,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði að menntamálaráðuneytið hefði ákveðið í samvinnu við hagsmunaaðila að móta stefnu um samræmda próftöku til framtíðar. Vinna við það stendur enn yfir. „Ég hef ekki trú á að þeirri vinnu ljúki á þessu vori, þetta er miklu stærra verkefni en svo að það sé hægt,“ sagði Þorsteinn.
Hann segir að verið sé að finna hvernig best sé að haga samræmdri próftöku til framtíðar og hvernig framkvæmdin eigi að vera. Þorsteinn kveðst vona að í framtíðinni verði prófað í fleiri námsgreinum en áður, líkt og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, sagði í viðtali við Morgunblaðið á laugardaginn var.
„Við skólastjórnendur erum jákvæðir gagnvart því að unnið sé að breytingum á þessu til framtíðar,“ sagði Þorsteinn. „Við vorum ekki sátt við fyrirkomulagið eins og það var.“ Hann sagði margt hafa ýtt undir þá óánægju, bæði framkvæmd samræmdu prófanna og fleira. Þorsteinn bendir á að tækninni hafi fleygt mikið fram og möguleikum fjölgað. Nú þurfi að ljúka við að gera prófin faglegri og betri en áður.
Samræmd próf hafa verið tekin í 4., 7. og 9. bekk. Þeim var frestað á liðnu hausti og gerir Þorsteinn ráð fyrir að þeim verði einnig frestað það sem eftir er vetrar.
„Við höfum hvorki mannafla, tækifæri né möguleika til að vera í þessari þróunarvinnu og halda um leið samræmd próf. Það er betra að bíða og gera hlutina vel og vandlega heldur en að kasta til höndunum,“ sagði Þorsteinn.