Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við átta greinar í reglum EES-samningsins um mat á umhverfisáhrifum þegar það breytti lögum um fiskeldi í október 2018.
Þá átelur stofnunin íslenska ríkið og sérstaklega fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson, fyrir að bregðast ekki við bráðabirgðaúrskurðinum, fyrir að nota hin röngu lög til þess að veita starfs- og rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja án umhverfismats og fyrir að gera brotin verri með aðgerðaleysi sínu þegar leyfin voru ekki afturkölluð, að því er Landvernd greinir frá.
Fram kemur, að íslensk stjórnvöld hafi nú tvo mánuði til að breyta þeim lögum sem samþykkt voru á Alþingi í október 2018. Landvernd kærði afgreiðslu málsins til ESA í lok árs 2018.
„Með þessu staðfestir ESA og bætir í bráðabirgðaúrskurð sinn frá í apríl 2020. Skv. bráðabirgðaúrskurðinum braut íslenska ríkið gegn fjórum greinum EES reglna um umhverfismat en niðurstaðan nú er að átta greinar reglnanna hafi verið brotnar.
Tregða íslenskra stjórnvalda til að fylgja ákvæðum alþjóðlegra samninga um umhverfisvernd og að hunsa bráðabirgðaúrskurð ESA mun að óbreyttu leiða til þess að íslensk stjórnvöld verða enn einu sinni að standa frammi fyrir EFTA dómstólnum,“ segir í tilkynningu Landverndar.