„Hafa brotið lög með tilheyrandi tjóni“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það stóralvarlegt mál að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi staðfest brot íslenska ríkisins á löggjöf um umhverfismat. „Nú sitja íslensk stjórnvöld og auðvitað íslenskur almenningur uppi með að hafa brotið lög með tilheyrandi tjóni.“

Helga Vala benti á, að málið varðaði afgreiðslu þingsins á fiskeldisfrumvarpi sem hefði verið afgreitt var á þingi í miklum hraði á einum degi árið 2018.

„Þetta er stóralvarlegt mál og sýnir viðhorf stjórnvalda til ákvarðanatöku í umhverfismálum. Þáverandi umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson fullyrti hér í þinginu að engar áhyggjur þyrfti að hafa af lögbrotum og þar við sat. Nú sitja íslensk stjórnvöld og auðvitað íslenskur almenningur uppi með að hafa brotið lög með tilheyrandi tjóni,“ sagði Helga Vala á Alþingi í dag. 

Hún tók fram að það væri mikilvægt að þingmenn fengju nægan tíma til umfjöllunar til að koma í veg fyrir mistök, stundum óafturkræf.

„Það er ekki merki um góða stjórnarhætti að standa hér fastur á vondri framkvæmd. Enn verri stjórnarhættir eru það að þvinga í gegnum Alþingi lagasetningu sem hefur óafturkræfar afleiðingar og oft og tíðum umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir íslenskan almenning,“ sagði Helga Vala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert