Enn eitt metið féll á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu í nóvember en þá seldust 43,6% allra seldra íbúða yfir ásettu verði.
„Hjá nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var met einnig slegið þegar 26,9% íbúða seldust yfir ásettu verði en hlutfallið var tæp 17% í október og rúm 21% í september,“ segir nýútkominni í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Fram kemur að í fyrstu vikunni í yfirstandandi mánuði voru 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem er 20,2% minna en 1. desember síðastliðinn.
Sjá má í skýrslu HMS að þrátt fyrir samdrátt í umsvifum á fasteignamarkaði á undanförnum mánuðum sé útlit fyrir að nýliðið ár verði metár í fjölda útgefinna kaupsamninga þegar allir samningar fyrir deembermánuð liggja fyrir.
„Kaupsamningar á fyrstu ellefu mánuðum ársins voru 12.744 samanborið við 12.545 á öllu árinu 2020 og 12.975 árið 2007. Íslendingum hefur hins vegar fjölgað um nærri 20% síðan þá og því má segja að viðskipti hafi verið hlutfallslega meiri á bóluárinu 2007,“ segir í skýrslunni.
Ekkert lát er á eftirspurnarþrýstingi á markaðinum en enn dregur þó úr fjölda íbúða sem boðnar eru til sölu.
„Í fyrstu vikunni í janúar voru 487 íbúðir til sölu sem er 20,2% minna en 1. desember sl. fyrir rétt rúmum mánuði. Bæði fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli er í sögulegu lágmarki,“ segir þar ennfremur.
Í fyrsta sinn frá sumrinu 2016 seldist hærra hlutfall íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu eða 42,2% samanborið við 41,4% meðal sérbýla og sölutími íbúða er enn mjög stuttur eða að meðaltali 39,2 dagar á höfuðborgarsvæðinu í nóvember og 56,4 dagar á landsbyggðinni.
Söluverð íbúða hefur hækkað verulega að undanförnu og var árshækkun íbúðaverðs á landinu öllu 15,4% í nóvembermánuði.
Meðalkaupverð íbúða á landinu var 58,5 milljónir kr. í nóvember og hafði þá hækkað um 7,7 milljónir króna á tólf mánuðum. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalkaupverðið 67,6 milljónir kr., þar af var það 58 milljónir kr. fyrir íbúðir í fjölbýli og 98 milljónir kr. fyrir sérbýli.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.