Frumvarp til laga sem myndu leiðrétta brot íslenska ríkisins á EES-samningnum um mat á umhverfisáhrifum voru þegar komin í samráðsgátt stjórnvalda í desember á síðasta ári.
Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Guðmundur Ingi var inntur eftir viðbrögðum við því að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við átta greinar í reglum EES-samningsins þegar lögum um fiskeldi var breytt hér á landi í október 2018. Þá var Guðmundur Ingi umhverfis- og loftslagsráðherra.
„Ég tel mikilvægt að bregðast við athugasemdum ESA og lagði áherslu á það í embætti mínu sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Þannig hefur verið unnið að breytingum á lögum um fiskeldi, hollustuhætti og mengunarvarnir og umhverfismat framkvæmda og áætlana í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið síðan bráðabirgðaniðurstaða ESA kom fram,“ segir Guðmundur Ingi.
„Afrakstur þeirrar vinnu eru drög að frumvarpi sem bregðast á við þessum niðurstöðum ESA og var einmitt sett í almenningssamráð í Samráðsgátt stjórnvalda 15. desember 2021 og er á þingmálaskrá nýs umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.“
Upphaflega var það Landvernd sem kvartaði undan nýju fiskeldislögunum árið 2018 og á vef samtakanna segir að með þeim „ólögum“ hafi fiskeldisfyrirtækjum verið veitt starfsleyfi án umhverfismats.
Guðmundur minnist á félagasamtök og aðkomu þeirra að opinberri stefnumótun í svari sínu til mbl.is:
„Ég vil annars ítreka mikilvægi þess að félagasamtök og almenningur geti tekið virkan þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvörðunum sem varða umhverfi og náttúru, enda beitti ég mér fyrir því sem umhverfis- og auðlindaráðherra, m.a. með því að þrefalda fjárframlög til rekstrar umhverfisverndarsamtaka,“ segir ráðherrann og bætir við:
„Að sama skapi tel ég afar mikilvægt að félagasamtök geti kært ákvarðanir stjórnvalda er varða umhverfismál til óháðs úrskurðaraðila og gerði m.a. gangskör í því að flýta málsmeðferðartíma Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með styrkingu nefndarinnar á síðasta kjörtímabili.“
Helga Vala Helgadóttir, þaingkona Samfylkingarinnar, var harðorð er hún ræddi málið á Alþingi í dag. Sagði hún stóralvarlegt að ríkið hafi gerst brotleg við EES-samninginn og sagði mikilvægt að þingmenn fengju rými til þess að ræða löggjafir á borð við þessa í þinginu til þess að fyrirbyggja að lögbrot af þessu tagi ættu sér stað.
„Þetta er stóralvarlegt mál og sýnir viðhorf stjórnvalda til ákvarðanatöku í umhverfismálum. Þáverandi umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson fullyrti hér í þinginu að engar áhyggjur þyrfti að hafa af lögbrotum og þar við sat. Nú sitja íslensk stjórnvöld og auðvitað íslenskur almenningur uppi með að hafa brotið lög með tilheyrandi tjóni,“ sagði Helga Vala á Alþingi í dag.